Rúmlega 1,7 milljón manns sóttu um vinnu hjá State bank of India þegar bankinn auglýsti 1500 stöður lausar. Bankinn, sem er stærsti ríkisbanki Indlands, hefur lofað að fara yfir allar auglýsingarnar.
Haft er eftir Pratip Chaudhuri, stjórnarformanni bankans að þennan mikla áhuga megi skýra með því að lagt hafi verið mikið upp úr því að auglýsa störfin og að kjörin séu góð. Þá hafi yfirskriftin „störf til lífstíðar“ vakið góð viðbrögð.
Bankinn setti fram nákvæmar upplýsingar um tryggingar, lífeyrismál og húsnæðisstyrki í atvinnuauglýsingunum, en níu af hverjum tíu Indverjum vinna í svokölluðum óformlegum geira og hafa engar tryggingar og vinna við ólöglegar aðstæður.
Atvinnutækifærum hefur farið fækkandi síðustu 18 mánuði á Indlandi, þar sem hægt hefur á hagvexti. Rekja má það til hárra vaxtakjara og minna trausts á atvinnulífinu. Áfram er þó gert ráð fyrir 5% hagvexti á þessu ári, en síðustu ár hefur hann verið mun hærri. Þessi hagvöxtur er þó ekki nægur til að skapa störf fyrir ört stækkandi kynslóð ungs fólks sem er að koma út á atvinnumarkaðinn.