Dæmi eru um að veiðileyfagjöld sem lögð hafa verið á sjávarútvegsfyrirtæki séu hærri eða jafnhá hagnaði fyrirtækjanna. Í öðrum tilvikum eru gjöldin það há að nánast allur hagnaður þeirra er gerður upptækur af ríkissjóði. Þessi skattlagning grefur undan byggðum landsins og kemur sérstaklega illa niður á smærri fyrirtækjum í greininni. Útlit er fyrir að á næsta ári hækki gjöldin enn frekar.
Þetta kom m.a. fram á aðalfundi SA 2013. Þar tók Georg Gísli Andersen, framkvæmdastjóri Valafells í Ólafsvík dæmi af þremur litlum og meðalstórum sjávarútvegsfyrirtækjum:
Hjá Valafelli starfa um 30 manns en á Snæfellsnesi eru um 50 lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki. Georg sagði þau mörg berjast fyrir tilveru sinni þessa dagana og benti ennfremur á að þegar lögin um veiðigjöld yrðu komin að fullu til framkvæmda myndi gjaldið hækka verulega, jafnvel um helming. Til marks um óvissuna sem væri til staðar gæti enginn reiknað hækkunina út enn sem komið er. Hann segir afleiðingar svo mikillar gjaldtöku og óvissu leiða til uppsagna og minni fjárfestinga. Ekkert standi eftir til að mæta viðhaldi, vöru- og markaðsþróun eða óvæntum áföllum.
„Hvernig í ósköpunum á að vera drifkraftur til framfara ef tengsl milli áhættu og hagnaðar eru ekki til staðar,“ sagði Georg en frétt um erindi hans af fundinum er birt á vef Samtaka atvinnulífsins.
Georg sagðist trúa því að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og stjórnvöld geti snúið bökum saman um leiðir til að tryggja samkeppnisforskot íslensks sjávarútvegs á heimsvísu á sama tíma og greinin greiði til þjóðarbúsins. Að sama skapi verði sjávarútvegurinn að vera tilbúinn til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar skynsamlega og sýna samfélagsábyrgð. Sátt sé um að greinin greiði veiðigjald, en ekki að gjaldið verði margfaldað. Gjald sem geri venjuleg fyrirtæki, sum hver áratuga gömul fjölskyldufyrirtæki, gjaldþrota. Stjórnmálamenn, hvar sem í flokki þeir standa, verði að koma sér saman um framtíðarstefnu í samvinnu við greinina til að hún geti haldið áfram að blómstra og verið grunnstoð í efnahagslífi þjóðarinnar.