Eimskip hefur strandsiglingar í dag

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips segir breytingarnar núna vera þær stærstu …
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips segir breytingarnar núna vera þær stærstu á leiðarkerfi fyrirtækisins í langan tíma. Eggert Jóhannesson

Í dag hefst fyrsta siglingin í nýju leiðarkerfi Eimskips þegar Brúarfoss heldur frá Reykjavík í strandsiglingu norður fyrir Ísland með tengingu við Færeyjar, Bretland og meginland Evrópu. Þetta er ein stærsta breyting sem gerð hefur verið á kerfi félagsins frá stofnun þess að mati forstjórans, Gylfa Sigfússonar.

Meðal  breytinga er að siglingin til Bandaríkjanna verður stytt og nýjar áherslur verða á flutningsvörur þaðan. Þá er í fyrsta skipti siglt beint til Póllands með uppsjávarfisk og vaxandi markað í öðrum fisktegundum og lögð verður sérstök áhersla á flutning á ferskum laxi frá Færeyjum til Skotlands og þaðan inná aðra markaði. Í samtali við mbl.is segir Gylfi að hann sjái einnig mikil tækifæri í tengslum við námu- og olíuvinnslu á Grænlandi,við  Íslands strendur og í landhelgi Grænlands. 

Stærstu breytingar í langan tíma

„Þetta eru stærstu breytingar sem hafa verið gerðar á kerfi Eimskips í langan tíma. Við þurfum að fara mjög langt aftur til að sjá átta skip í þjónustu hér á Norður-Atlantshafinu í þjónustu félagsins“ segir Gylfi. Í nýrri siglingaráætlun er siglt til Portland í Maine í stað Norfolk í Virginíu. Þetta skapar að sögn Gylfa meðal annars slaka sem gefi kost á að tengja alþjóðlegar flutningalínur félagsins við strandsiglingar hér heima.

Með flutningnum frá Norfolk er verið að kveðja langa sögu sem tengdist mikið til veru hersins hér á landi og meðal annars miklum innflutningi á bílum og tjaldvögnum. Gylfi segir að lítið sé um þessa innflutninga í dag og meirihluti bílanna komi nú frá Evrópu. Þá sé herinn löngu farinn þannig að áherslubreytingin hafi verið skynsamleg. 

Helsta uppistaðan í útflutningi til Portlands verður að sögn hans ýsa og þorskur frá Íslandi og Noregi en á móti bjóði þessi nýja höfn upp á mikla möguleika með flutninga frá Portland á rækju, krabbafiski, timbri, dagblaða pappír og jafnvel innflutningi á grænmeti og ávöxtum til Íslands. Segir Gylfi að með styttingu flutningaleiðarinnar verði flutningar á dagvöru sem hafi stutt geymsluþol mögulegir.

Mikil tækifæri við Grænland

Í kynningu fyrir nýja kerfið kemur fram að miklir möguleikar séu í tengslum við flutninga til Grænlands. Nú þegar gegnir Ísland mikilvægu hlutverki í flutningum til landsins að sögn Gylfa. „Við erum í dag umskipunarhöfn fyrir Grænland. Öll vara sem á sér uppruna í Kanada eða Bandaríkjunum er flutt með okkar skipum til Reykjavíkur þar sem Royal Arctic Line, sér um flutningana til og frá Grænlandi í umboði Grænlensku landstjórnarinnar, kemur við í Reykjavík og sækir það sem við flytjum frá Bandaríkjunum og Kanada.“

Hann segir helstu verkefnin sem menn horfi til í dag á þessu svæði vera á sviði námu- og olíuvinnslu. Meðal annars segir hann líkur á að byrjað verði á næstu misserum að flytja hráefni til Íslands til frekari vinnslu frá Grænlandi.

Frekari vinnsla á norðurlandi

Það sem gerir námuvinnsluna í norðaustur Grænlandi erfiða er að hafnir þar eru lokaðar mestan hluta ársins. „Gallinn er að það er ekki opið nema tvo mánuði á ári fyrir siglingar til norðaustur hluta Grænlands og þess vegna hafa menn talað um að vinna til góða hráefni allan veturinn, en svo þegar opnast fyrir stór skip þá muni þau flytja hráefnið inn á svæði eins og við Dysnes við Eyjafjörð“, segir Gylfi. Hann segir menn vera komna langt í að setja fram tilboð í slíkt verkefni.

Strandsiglingar tengdar við alþjóðlegar leiðir

Eins og fyrr sagði leiðir styttingin á Ameríkuleiðinni til þess að hægt er að koma við í nokkrum höfnum á Íslandi á leiðinni vestur til frá Noregi, en auk þess koma  aðrar leiðir félagsins nú þegar við á Grundartanga, á Reyðarfirði og í Vestmannaeyjum. Gylfi segir að þar með sé grunnurinn undir strandsiglingar kominn. Hann lokar þó ekki á þann möguleika að fjölga jafnvel enn frekar viðkomustöðum hérlendis og nefnir í því samhengi að viðræður hafi átt sér stað við aðila á Vestfjörðum, Sauðárkróki, Hvammstanga og Húsavík.

Þá verður eftir breytingarnar komið  oftar við í Færeyjum en áður, í Klakksvík, Þórshöfn og Vágur á Suðurey. Gylfi segir þetta vera mikið tækifæri fyrir Færeyinga, en þarna geti þeir meðal annars flutt út ferskan eldislax tvisvar í viku til Englands og Skotlands sem svo fari beint í flug til Bandaríkjanna á veitingahúsamarkað og á markaði í Frakklandi.

Beinar siglingar til Póllands í fyrsta skipti

Önnur stór breyting á siglingakerfinu, er að sú leið sem hefur tengt Ísland við Skandínavíu og Holland mun útvíkka siglingakerfið og sigla beint til Póllands. Segir Gylfi að það sé í fyrsta skipti sem íslenskt félag sigli beint til Póllands og nái að tengja íslenskan og færeyskan uppsjávarfisk inn á þessa markaði. „Hingað til hefur það verið óhagkvæmt að sigla með fiskinn til Rotterdam og tengja hann þar við aðrar línur inn á Eystrasalts-markaðinn. Nú þegar þetta er orðið hluti af okkar siglingakerfi er hægt að gera þetta á hagkvæmari hátt en áður“, segir hann.

Með nýja siglingakerfinu munu átta skip Eimskipafélagsins sigla á Norður-Atlantshafinu í tengingum við Ísland og sex vera í strandsiglingum við Noreg. Auk þess rekur félagið Herjólf og er með nokkur skip í tilfallandi verkefnum, svo sem timbur-, fóður og mjölflutningi.

Brúarfoss mun hefja strandsiglingarnar í dag.
Brúarfoss mun hefja strandsiglingarnar í dag. mbl.is/Óskar Pétur
Frá athafnasvæði Eimskip
Frá athafnasvæði Eimskip Af vef Eimskip
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka