Ferðamannapassar fyrir 10 milljarða

Engu er líkara en þessir ferðamenn séu að leita að …
Engu er líkara en þessir ferðamenn séu að leita að gullinu við enda regnbogans þar sem þeir standa í úðanum frá Skógafossi í haustsólinni. Líklega fundu þeir þó frekar bleytu en gull í þetta skiptið. mbl.is/Rax

„Ísland er í dag að upplifa mikla aukningu í fjölda ferðamanna, en hlutur ykkar er enn mjög lítill og því er mikið tækifæri á að auka hlutdeild landsins.“ Þetta segir Robert Barnard, ráðgjafi hjá PKF, en hann var með erindi á ráðstefnu Íslandsstofu í dag um heildarúttekt á ferðaþjónustunni.

Á meðal þess sem Barnard kom inn á var að bæta mætti markaðssetningu landsins töluvert, koma á fót ferðamálasjóð með gjaldtöku á ferðamenn og að mögulegt sé að tæplega þrefalda tekjur ferðaþjónustunnar á næstu 7 árum.

Í samtali við mbl.is sagði Barnard að mikilvægt væri að bæta markaðssetninguna með skipulögðum hætti. „Það er allt of mikið af vörumerkjum til að auglýsa Ísland. Ef fólk fer inn á vefsíður um íslensk ferðamál þá er þetta mjög villandi. Mörg þeirra sýna ekki fram á hvaða möguleika Ísland hefur upp á að bjóða,“ sagði Barnard.

10 milljarðar í ferðamálasjóð

Í skýrslunni er bent á nauðsyn þess að koma á fót sjóð sem kemur að viðhaldi og uppbyggingu á ferðamannastöðum. Til að fjármagna slíkan sjóð segir Barnard nauðsynlegt að setja einhverskonar gjald á ferðamenn og leggur meðal annars til að um 50 evrur séu settar á hvern ferðamann sem kemur til landsins. Slíkt fyrirkomulag gæti aflað sjóðnum rúmlega 10 milljörðum á hverju ári eftir 2020 til þess að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn hérlendis.

Aðspurður hvort slíkt myndi ekki leiða til neikvæðra áhrifa á komu ferðamanna hingað til lands segir Barnard að svo þurfi ekki að vera. Meðal annars þurfi ferðamenn á mörgum stöðum að greiða fyrir vegabréfaáritun og jafnvel brottfararskatt. Segir hann að ef fólk vilji koma hingað muni það ekki láta slíkt gjald aftra sér. Flestir viti að það kosti að viðhalda ferðamannastöðum og nefndi hann sem dæmi að það kosti 25 sterlingspund að fara í dýflissuna í London, en samt streymi ferðamenn á slíka staði.

Vestfirðir spennandi 

Skýrsluhöfundar nefna nokkur verkefni sem þeir telja áhugaverð til uppbyggingar á mismunandi stöðum hérlendis. Barnard sagði í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni í morgun að hann teldi Snæfellsnes og Vestfirði bjóða upp á mjög áhugaverða möguleika og nefndi í því samhengi verkefnið White river mythical spa, sem er á teikniborðinu og væri bæði hótel og heilsulind.

Þá nefndi hann mikla möguleika norðausturlandsins, en að samgöngur þessara tveggja landshluta yfir vetrarmánuðina gætu verið vandamál. Sagði hann að beint flug frá Evrópu til Akureyrar fyrir ferðamenn gæti gert mikið í því samhengi.

Robert Barnard, ráðgjafi hjá PKF.
Robert Barnard, ráðgjafi hjá PKF. Mynd/Arnaldur Halldórsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka