Gengi evrunnar var stöðugt við opnun markaða í Asíu í morgun en vonir eru um að frekari viðræður á milli Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins annars vegar og stjórnvalda á Kýpur hins vegar vegna efnahagsvanda landsins skili árangri.
Fram kemur í frétt AFP að markaðirnir fylgist grannt með Kýpur og áframhaldandi viðræðum í kjölfar þess að kýpverskir þingmenn höfnuðu samkomulagi um björgunarpakka frá ESB og AGS sem meðal annars gerði ráð fyrir því að lagður yrði sérstakur skattur á bankainnistæður.
Haft er eftir Daisaku Ueno hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Morgan Stanley að fjárfestar telji að það versta sé að baki varðandi efnahagserfiðleika Kýpur. Staðan þar hafi þó minnt á að langur vegur sé frá því að tekist hafi að leysa algerlega úr efnahagsvanda evrusvæðisins.