Lækkuðu kostnað um tvo milljarða

Frá árinu 2007 hefur tekist að lækka árlegan kostnað mjólkuriðnaðarins um tvo milljarða króna. Guðmundur Geir Gunnarsson, mjólkurbússtjóri á Selfossi, segir að bændur og neytendur hafi hagnast á þessari hagræðingu í formi hærra afurðaverða og lægra vöruverðs. Nú standa yfir miklar fjárfestingar hjá fyrirtækinu sem miða að því að ná fram enn meiri hagræðingu.

Árleg mjólkurframleiðsla á Íslandi er rúmlega 120 milljónir lítrar af mjólk. Þegar þeim fjárfestingum sem nú standa verður lokið fer um helmingur af allri mjólkurvinnslu á landinu fram á Selfossi. Breytingarnar á Selfossi miða að því að flytja alla pökkun á mjólk frá Reykjavík til Selfoss.

Guðmundur segir að markmiðið með breytingunum sé að auka sérhæfingu í mjólkurvinnslu og lækka vinnslukostnað mjólkur enn frekar. Öll sýring á mjólk komi til með að fara fram á Selfossi, en á Akureyri verði ostagerð og sérvörudeild, en þar fer fram framleiðsla á hrísmjólk, grjónagraut, rjómaosti, ostakökum og fleiru. Hann segir að fjárfest verði í alveg nýrri ostavinnslu á Akureyri sem kalli á miklar fjárfestingar. Áætlað er að fjárfestingin þar kosti um milljarð.

Bjóða upp á tappa á fernur

Guðmundur segir að talsvert af tækjum og búnaði sem er í Reykjavík verði fluttur á Selfoss, en einnig verði fjárfesti í nýrri pökkunarlínu á Selfossi. Neytendur verði varir við þessar breytingar þegar nýjar tegundir af pakkningum birtast í búðum. Öll mjólk verði í sömu gerð umbúða auk þess sem boðið verður upp á fernur með tappa.

Guðmundur var spurður hvort að meiri sérhæfing og samþjöppun í mjólkuriðnaði kallaði ekki á meiri flutninga á vörum milli landshluta. Hann segir það vissulega rétt. Kostnaðurinn við þessa flutninga sé hins vegar mun minni en sú hagræðing sem næst fram með aukinni sérhæfingu. Guðmundur segir að mikla orku þurfi í mjólkurvinnslu, m.a. í þrif á búnaði, en við þrif er lykilatriði að framleiða nægilegt magn af gufu. Guðmundur segir að samhæfing í rekstri og stærri einingar gerðu mönnum kleift að spara mikla fjármuni í þessum þætti.

Nota róbót við pökkun

Ein af þeim nýjungum sem MS hefur farið út í er að nota róbóta við pökkun. Búið er að taka einn róbót í notkun á Selfossi en von er á þremur til viðbótar. Guðmundur segir að róbótarnir hafi komið vel út. Þeir leysi af hólmi mannskap sem hafi unnið erfið og einhæf störf.

Eftir að flest öll mjólkurbú á landinu sameinuðust undir hatti Auðhumlu árið 2007 var farið að ræða skipulagsbreytingar í mjólkurvinnslunni. Upphaflega stóð til að byggja pökkunarstöð á Selfossi og selja húsnæði MS á Bitruhálsi, bæði húsnæði MS og hús Osta- og smjörsölunnar. Hætt var við þetta, en í staðinn verður húsið á Bitruhálsi nýtt sem vörulager og öll pökkun á mjólk flutt á Selfoss.

Þetta þýðir að mjólkurvinnslu verður hætt í Reykjavík. Það eru ákveðin tímamót því að mjólkurvinnsla hefur verið rekin í Reykjavík samfleytt frá árinu 1920.

Bensín og gos kosta mun meira en mjólk

Guðmundur segir að frá 2007 hafi starfsmönnum í mjólkuriðnaði hér á landi fækkað um 215 manns. Samtals hafi árlegur rekstrarkostnaður iðnaðarins lækkað um tvö milljarða á þessum fimm árum. Hann segir að þessum sparnaði hafi verið skilað til bænda í formi hærra afurðaverðs og til neytenda í formi lægra verða á mjólkurvörum. Hann bendir á að lengi vel hafi lítri af mjólk kostað það sama og einn lítri af bensíni. Nú kosti mjólkurlítri um 125 kr, bensínið kostar 254 kr og  algengt verð á hálfum lítra af gosi er 250 kr.

Mjólkurvinnslu hætt í Reykjavík

Þegar mjólkurbúin á Íslandi voru flest voru þau 18, en þau voru lengi 16. Þegar breytingunum sem nú standa yfir hjá MS verður lokið verður mjólkurvinnsla á fimm stöðum á landinu, Selfossi, Egilsstöðum, Sauðárkróki, Búðardal og Akureyri.

Núna síðast var mjólkurvinnslu hætt á Vopnafirði, Blönduósi, Ísafirði og í Reykjavík. Samdrátturinn í Reykjavík hefur verið stigin í tveimur skrefum, en fyrst var Osta- og smjörsölunni lokað og nú er unnið að því að hætta mjólkurvinnslu hjá Mjólkursamsölunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka