Ástand efnahagsmála nú einkennist „af því að efnahagsbatinn sem hófst undir mitt ár 2010 hefur haldið áfram en hefur hægt á sér á síðustu mánuðum. Á það a.m.k. að nokkru leyti rætur að rekja til alþjóðlegrar þróunar,“ sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, í ræðu sinni á ársfundi bankans í dag.
„Slakinn í þjóðarbúskapnum heldur áfram að minnka. Verðbólgan hefur hins vegar reynst þrálátari en vonir stóðu til,“ sagði Már.
Hann sagði að launahækkanir langt umfram framleiðniaukningu hafi átt í upphafi veigamikinn þátt í því að verðbólgan varð umfram verðbólgumarkmið. „En frá haustmánuðum hefur lækkun gengisins vegna verri viðskiptakjara og þungrar afborgunarbyrði á erlendum lánum átt meiri hlut að máli. Peningastefnan brást við þessari þróun með hækkun vaxta sem hófst í ágúst 2011. Seðlabankavextir hafa hins vegar verið óbreyttir síðan í nóvember sl. en inngrip á gjaldeyrismarkaði hafa stutt við gengið að undanförnu og þannig stutt við viðleitni peningastefnunnar til að ná verðbólgu í markmið á ný,“ sagði seðlabankastjóri í ræðu sinni.
Hann sagði að samkvæmt fyrstu mælingum Hagstofu Íslands fyrir árið í heildi haf hagvöxtur á síðasta ári numið 1,6%.
„Þetta er þó nokkru minni hagvöxtur en Seðlabankinn spáði í febrúar sl. sem var 2,2%. Hagvöxtur á árinu 2011 var aftur á móti endurmetinn til hækkunar, úr 2,6% í 2,9%. Er það í góðu samræmi við fyrstu spár Seðlabankans um hagvöxt á því ári,“ sagði Már.
„Hagvöxtur á síðasta ári var drifinn áfram af aukinni einkaneyslu og fjárfestingum atvinnuvega en aðrir liðir eins og utanríkisviðskipti og samneysla voru með lítilsháttar neikvætt framlag til hagvaxtarins. Þetta er svipað og segja má um uppsveifluna í heild á árunum 2010-2012 en þar leggja fjárfestingar atvinnuvega og einkaneysla nokkuð jafn til hagvaxtarins, atvinnuvegafjárfestingin þó ívið meira. Hagvöxtur á síðasta ári var að því leyti traustur að hann var ekki fenginn að láni, enda undirliggjandi viðskiptaafgangur á árinu 2012 sem nam tæplega 4% af landsframleiðslu,“ sagði Már.
Már sagði að vextir Seðlabankans hafi verið óbreyttir frá því í nóvember 2012 þegar þeir voru hækkaðir um 0,25%. Hann sagði að sagði að í yfirlýsingu peningastefnunefndar í nóvember hafi verið gefið í skyn að nafnvextir Seðlabanka gætu orðið óbreyttir á komandi mánuðum ef þróunin yrði í samræmi við spána og ekki samið um viðbótarlaunahækkanir snemma á þessu ári.
„Þetta hefur hingað til gengið eftir og nefndin hélt vöxtum óbreyttum á fundum sínum í desember, febrúar og nú í mars,“ sagði Már.
Hann ræddi umtalsvert um fjármagnshöftin og sagði meðal annars: „Við þurfum að losna við fjármagnshöftin eins fljótt og það er óhætt, bæði vegna þess efnahagslega kostnaðar sem af þeim hlýst og vegna alþjóðlegra skuldbindinga okkar. Í ræðu minni í fyrra sagði ég það vera eitt flóknasta viðfangsefni sem íslensk stjórnvöld stæðu þá frammi fyrir. Það hefur ekkert breyst. Það er forsenda þess að vel takist til að byggja á sem bestri greiningu á eðli þess vanda sem við er að glíma og þeim lausnum sem koma til greina. Hingað til hefur verið litið svo á að höftin séu til þess að veita skjól á meðan undið er ofan af ójafnvægi greiðslujafnaðar sem leiddi af hruni fjármálakerfisins.“
Ræðu seðlabankastjóra í heild má finna hér að neðan: