Hagnaður Sjóvá margfaldast milli ára

Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá.
Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hagnaðist um rúmlega 2 milljarða króna á síðasta ári, en það er aukning um 220% frá árinu á undan þegar félagið hagnaðist um 642 milljónir. Í tilkynningu frá félaginu segir að góð afkoma hafi verið af bæði vátryggingarekstri félagsins og fjárfestingastarfsemi þess. Þá segir að ríkisskuldabréfaeign félagsins dugi fyrir eigin tjónaskuld og ríkisskuldabréf og bankainnstæður til að mæta eigin vátryggingaskuld.

Samtals nema verðbréfaeign og laust fé félagsins 30,5 milljörðum en skuldir félagsins eru
23,2 milljarðar. Eiginfjárhlutfall félagsins í lok árs 2012 var 37,2%. Haft er eftir Hermanni Björnssyni, forstjóra félagsins að afkoman hafi verið góð og uppbyggingastarf sé að skila sér. „Árið 2012 var viðburðaríkt í rekstri félagsins. Afkoma Sjóvár var góð á árinu og er efnahagur félagsins afar traustur. Góð afkoma skýrist annars vegar af hagstæðum ytri skilyrðum og hins vegar er það uppbyggingarstarf sem ráðist hefur verið í innan félagsins farið að bera ávöxt,“ segir Hermann.

Heildartekjur félagsins námu 14,2 milljörðum á árinu miðað við 14,1 milljarð á síðasta ári.  Þar af voru fjárfestingatekjur 2,5 milljarðar, en voru 2,9 milljarðar árið 2011. Tjónshlutfall á árinu var 64,2% samanborið við 67,5% árið áður.

Þá var samþykktum félagsins breytt á aðalfundi þannig að þær uppfylli skilyrði um skráningu í kauphöll. Einnig var á fundunum gerð breyting á samþykktum í því skyni að uppfylla breytingu á lögum um tiltekna skiptingu kynja í stjórn félagsins. 

Í aðalstjórn voru kjörin þau Erna Gísladóttir, Tómas Kristjánsson, Ingi Jóhann Guðmundsson, Heimir Haraldsson og Kristín Haraldsdóttir. Varamenn í stjórn voru kjörin þau Garðar Gíslason, Jón Diðrik Jónsson, Erna Hlíf Jónsdóttir, Axel Ísaksson og Þórhildur Ólöf Helgadóttir. Hlutfall kvenna er því 40% bæði í aðalstjórn og hjá varamönnum.

Efnisorð: Sjóvá-Almennar
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK