Íslenskir neytendur hafa ekki verið bjartsýnni á efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar frá því í september í fyrra ef marka má Væntingavísitölu Capacent Gallup sem birt var nú í morgun. Þannig hækkaði vísitalan um 8,2 stig á milli febrúar og mars, og mælist hún nú 88,9 stig. Í raun hafa neytendur aðeins einu sinni áður verið bjartsýnni á gang mála frá því á vormánuðum 2008, en það var í september í fyrra þegar vísitalan fór upp í 90,1 stig. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka í dag.
Allar undirvísitölur væntingavísitölunnar hækka í mars frá fyrri mánuði, en athygli vekur mikil hækkun á væntingum neytenda til næstu 6 mánaða sem hækkaði um 10,1 stig og er nú 124,4 stig. Fara þarf aftur til miðs árs 2007 til þess að finna hærra gildi á þessari undirvísitölu.
Jafnframt hækkar mat á atvinnuástandinu töluvert á milli mánaða, eða um 11,8 stig, en sú vísitala stendur nú í 94,9 stigum. Mat neytenda á efnahagslífinu hækkar svo um 6,7 stig og á núverandi ástandi um 5,4 stig. Mælist fyrrnefnda vísitalan 77,0 stig en sú síðarnefnda 35,6 stig.