Tap Íbúðalánasjóðs á síðasta ári var 7,9 milljarðar króna, samanborið við 1 milljarða hagnað árið 2011. Eigið fé sjóðsins var í árslok 14,7 milljarðar að teknu tilliti til aukningar stofnfjár að fjárhæð 13 milljarðar króna sem greidd verður til sjóðsins í formi ríkisskuldabréfa miðað við 1. janúar 2013, en eiginfjárhlutfall sjóðsins er 3,2%. Eigið fé nam 9,55 milljörðum í árslok 2011 og var eiginfjárhlutfallið þá 2,3%. Þetta er nokkuð undir langtímamarkmiði sjóðsins um að hlutfallið sé yfir 5%. Í ársreikningi sjóðsins kemur fram að viðræður við stjórnvöld miði að því að uppfylla þetta skilyrði.
Hreinar vaxtatekjur sjóðsins námu 2,5 milljörðum króna samanborið við 2,7 milljarða árið 2011. Aðrar tekjur hækka um 426,7 milljónir milli ára og munar þar mest um leigutekjur íbúða í eigu sjóðsins þar sem tekjur aukast um 429,5 milljónir milli ára.
Í ársreikningnum kemur fram að í árslok hafi útlán numið 779 milljörðum króna og lækkuðu um 3 milljarða á árinu. Lántaka sjóðsins nam 861 milljörðum og hækkaði um 3,6 milljarða á árinu. Heildareignir sjóðsins í lok árs námu 876 milljörðum króna.
Heildarfjárhæð nýrra útlána Íbúðalánasjóðs árið 2012 nam um 14,3 milljarði samanborið við 24 milljarða árið 2011. Þess má geta að umfang yfirtekinna lána og veðflutningar námu hærri fjárhæð en sem nam nýjum útlánum ársins. Fjöldi nýrra útlána sjóðsins var 1.583 en allir skráðir kaupsamningar um íbúðarhúsnæði voru á sama tíma 6.690 alls samkvæmt þjóðskrá.
Vegið meðaltal veðsetningarhlutfalls heildarútlána sjóðsins af fasteignamati undirliggjandi eigna er um 59%. Sama hlutfall var 62% í lok árs 2011. Hækkandi fasteignaverð á markaði leiðir til styrkingar veðstöðu útlánasafnsins.
Á árinu leysti sjóðurinn til sín 743 íbúð til fullnustu krafna og seldi 125 íbúðir. Í eigu sjóðsins voru 2.224 fullnustueignir í lok árs 2012 og hafði þeim fjölgað um 618 á árinu. Um 42% þessara eigna eru í útleigu sé litið til fjölda eigna og 46% eru í útleigu sé litið til undirliggjandi virðis.