Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,2% á milli mánaða sem þýðir að verðbólgan, mæld á tólf mánaða tímabili, fer niður í 3,9%. Í síðasta mánuði mældist tólf mánaða verðbólgan 4,3%, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.
Er þetta minni hækkun heldur en til að mynda greining Íslandsbanka hafði spáð.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði í mars um 0,15% frá febrúar.
Verð á bensíni og olíum lækkaði um 3,7% (vísitöluáhrif -0,22%). Vetrarútsölum er víðast lokið og hækkaði verð á fötum og skóm um 2,6% (0,13%).
Minnsta verðbólga í tæp tvö ár
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,9% og vísitalan án húsnæðis um 4,4%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,1% sem jafngildir 8,7% verðbólgu á ári (10,0% verðbólgu á ári fyrir vísitöluna án húsnæðis). Er þetta í fyrsta skipti síðan í maí 2011 sem tólf mánaða verðbólgan fer niður fyrir 4%. Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5%.
Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í mars 2013, sem er 410,7 stig, gildir til verðtryggingar í maí 2013. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 8.109 stig fyrir maí 2013.