Atvinnuleysi mælist nú 12% á evru-svæðinu og hefur aldrei verið meira frá stofnun myntbandalags Evrópu árið 1999. Það þýðir að yfir 19 milljónir íbúa í ríkjunum 17 eru án atvinnu.
Innan Evrópusambandsins mældist atvinnuleysið 10,9% í febrúar en var 10,8% í janúar. Það þýðir að það eru 26,34 milljónir íbúa ríkjanna 27 sem eru án atvinnu.
Atvinnuleysið er mest í á Spáni eða 26,3% í febrúar og 17,5% í nágrannaríkinu Portúgal. Ekki eru til nýrri tölur en síðan í desember fyrir Grikkland en samkvæmt þeim mældist atvinnuleysið 26,4% þar í landi í síðasta mánuði ársins. Atvinnuleysið var minnst í Austurríki, 4,8% og 5,4% í Þýskalandi.
Atvinnuleysi er gríðarlega mikið meðal ungs fólks í Evrópu en samkvæmt upplýsingum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, var það 23,9% meðal fólks yngri en 25 ára á evru-svæðinu en 23,5% innan ESB. Á Spáni er atvinnuleysi meðal ungs fólks 55,7%, 38,2% í Portúgal og 37,8% á Ítalíu. Samkvæmt upplýsingum frá Grikklandi voru 58,4% ungmenna án atvinnu í desember en ekki liggja fyrir nýrri upplýsingar um vinnumarkaðinn þar.