Sjötíu hæst settu stjórnendur Baclays bankans fengu allt of há laun sem tengdust skammtímaágóða en ekki langtímahagsmunum bankans. Þá virtust margir starfsmenn bankans hafa talið sig óháða reglum og lögum og verið án allrar auðmýktar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem Barclays bankinn lét lögfræðinginn Anthony Salz vinna fyrir sig, en stjórnarformaður bankans segir skýrsluna hafa verið mjög óþægilega lesningu.
Salz segir í skýrslunni að ef Barclays vilji ná að bæta orðspor sitt sé nauðsynlegt að gerðar verði frekari breytingar á greiðslukerfi til hæstu stjórnenda þar sem tekið væri mið af hæfileikum og framlagi þeirra á raunsærri hátt.
Skýrslan kemur í kjölfarið á mjög erfiðu tímabili hjá bankanum, en í fyrra var Barclays fyrsti bankinn til að greiða sektir vegna þátttöku í Libor hneykslinu. Greiddi bankinn 290 milljón sterlingspund eftir að hafa tekið þátt í að svindla á Libor vaxtaákvörðunum.
Þá er einnig komið inn á að fyrirtækjamenningin innan bankans hafi verið orðin sýrð af því að hugsa um skammtímahagsmuni umfram sjálfbærni og varanlegan vöxt.