Á árunum 2004 til 2008 jókst peningamagn í umferð margfalt, en það er ein af helstu ástæðum þess að erfitt er að afnema gjaldeyrishöftin. Þá getur þetta mikla peningamagn einnig leitt til eignabólu, sem nú þegar er hafin á skuldabréfamarkaði. Þetta segir Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og lektor við Háskóla Íslands. Hann telur að lækka þurfi peningamagn niður í um 60 til 70% af landsframleiðslu, en þetta hlutfall er rúmlega 90% í dag.
Að magi Ásgeirs eru tvær ástæður fyrir aukningunni sem varð í peningamagni hér á landi, en það jókst um rúmlega 250%. „Þetta hefur gerst með tvennum hætti. Þegar bindiskyldan lækkaði 2003 þá hækkaði peningamargfaldarinn og 2008 þegar repó reglur voru rýmkaðar,“ segir hann.
„Mikið peningamagn er megin ástæða gjaldeyrishaftanna. Mikið lausafé í umferð sem að bíður eftir því að komast burt en er fast í kerfinu. Það er ekki hægt að afnema höftin nema að ná þessu niður vegna þess að þetta magn er verulega umfram jafnvægi hagkerfisins,“ segir Ásgeir.
Áður fyrr var peningamagn almennt í kringum 40% af landsframleiðslu að hans sögn en fór yfir 110% á síðustu árum. Í dag er hlutfallið komið í 90%, en það þyrfti að lækka niður í um 60 til 70% til að ná eðlilegri stöðu.
Ásgeir segir að almennt eigi hátt peningahlutfall að lagast með verðbólgu sem étur upp raunvirði peningamagnsins. Í því kerfi sem Íslendingar búi við á bakvið höftin beinist áhrifin aftur á móti á eignamarkaðinn.
Hann segir tímaspursmál hvenær þetta mikla peningamagn komi fram sem bóla, en að í dag hafi bóluáhrifin aðallega sést á skuldabréfamarkaðinum. Það geti þó hæglega breyst og farið yfir á fasteignamarkaðinn líka.
Sem lausn þessa vandamáls nefnir Ásgeir ástarbréfin svokölluðu. Hann segir þrotabú gömlu bankanna vera að eignast mikið af peningaframboðinu. Það eigi því að láta ástarbréfagjörningana ganga til baka. „Það þarf að taka einhver hundruð milljarða út úr fjármagnskerfinu inn í Seðlabankann aftur.“ Hann segir þetta hægt meðal annars með sölu á KB íbúðabréfum fyrir 120 milljarða eða með afgangi af ríkissjóði og uppgreiðslu skulda.