Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur heimilað forstjóra að ganga til samninga við meðeigendur OR í Hrafnabjargavirkjun hf. með það að markmiði að þeir eignist hlut Orkuveitunnar og að hún gangi þar með alfarið út úr félaginu. Endanlegt samkomulag þar um verði lagt fyrir stjórn OR til samþykktar.
Tillaga þessa efnis var samþykkt á stjórnarfundi OR á föstudag.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gerir alvarlega athugasemd við fyrirhuguð vinnubrögð við sölu á ráðandi hlut Orkuveitunnar í Hrafnabjargavirkjun hf. Við sölu á slíkum hlut sé eðlilegt að þannig sé staðið að málum að söluverð verði hámarkað í gagnsæju söluferli í stað þess að gengið verði beint til samninga við meðeigendur Orkuveitunnar í umræddu félagi.
Í bókun Kjartans við tillöguna bendir hann á að rafmagnsöflun í þágu almennings sé grundvallaratriði í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. Um helmingur af rafmagnssölu OR á almennan markað kemur nú frá Landsvirkjun, samkvæmt sérstökum samningum, hinn þýðingarmesti er svokallaður tólf ára samningur, sem rennur út í árslok 2016. „Verði sá samningur endurnýjaður, má búast við verulegri verðhækkun á raforkunni samkvæmt yfirlýstri stefnu Landsvirkjunar. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að Orkuveitan leiti nýrra leiða til orkuöflunar í því skyni að tryggja almenningi á Stór-Reykjavíkursvæðinu hagstætt orkuverð til framtíðar. Í slíkri vinnu kemur sterklega til álita að Orkuveitan auki orkuvinnslu sína og dragi úr rafmagnskaupum frá Landsvirkjun,“ segir m.a. í bókun Kjartans.
Í skýrslu forstjóra um málið, sem lögð var fram á fundinum, kemur skýrt fram að Orkuveitan þurfi að auka orkuvinnslu sína og/eða halda áfram að kaupa raforku af þriðja aðila til að fullnægja umræddri þörf.
Kjartan segir athugun málsins hafa leitt í ljós að mikil óvissa ríki um hvernig Orkuveitan muni fullnægja raforkuþörf fyrir almennan markað eftir árið 2016. „Ljóst er að vinna þarf ötullega að því á næstunni að skilgreina tiltæka kosti og taka ákvörðun með það að leiðarljósi að tryggja almenningi raforku á hagstæðu verði. Takist það ekki skapast hætta á að Orkuveitan þurfi að sæta afarkostum í raforkukaupum, sem gæti haft í för með sér verulega hækkun á raforkuverði til almennings.
Við slíkar aðstæður er óráðlegt að meirihluti stjórnar Orkuveitunnar gefi frá sér möguleika á þátttöku í slíku verkefni og fækki þar með orkuöflunarkostum fyrirtækisins til framtíðar.“