Skoða uppbyggingu hátækniseturs hérlendis

Fjalar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Gæðasviðs Alvogen
Fjalar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Gæðasviðs Alvogen

Lyfjafyrirtækið Alvogen undirbýr nú byggingu Hátækniseturs sem mun hýsa alþjóðlegar skrifstofur Alvogen og þróun- og framleiðslu líftæknilyfja. Til skoðunar er meðal annars að starfsemin verði innan Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni. Fyrirhugað er að Hátæknisetrið muni hýsa um 200 starfsmenn félagsins á næstu árum. Gert er ráð fyrir að fyrstu líftæknilyf Alvogen verði markaðssett árið 2019. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Dr. Fjalar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Gæðasviðs Alvogen mun stýra hönnun og uppbyggingu Hátæknisetursins, sem meðal annars hefur verið unnin í samstarfi við íslensk fyrirtæki. Fjalar hefur áratuga reynslu af lyfjageiranum og hefur verið lykilstjórnandi hjá Alvogen, Actavis og Delta um langt skeið.

„Alvogen hyggst vera í hópi fyrstu samheitalyfjafyrirtækja sem markaðssetja lyfin á heimsvísu. Fá alþjóðleg samheitalyfjafyrirtæki hafa haslað sér völl í eigin þróun og framleiðslu líftæknilyfja eins og Alvogen hyggst gera. Við sjáum því mikil tækifæri á sviði líftæknilyfja og munum fljótlega taka ákvörðun um staðsetningu starfseminnar. Áhugavert væri að byggja upp slíka starfsemi á Íslandi og fýsileikakönnun á þeim valkosti er nú langt komin“, segir Fjalar. 

Ísland og Malta eru ákjósanlegir staðir fyrir lyfjaþróun segir í tilkynningunni. Þá gerir einkaleyfaumhverfi þessara landa fyrirtækjum kleift að hefja þróun og framleiðslu lyfja áður en einkaleyfi þeirra renna út. Þetta skapar ákveðið samkeppnisforskot fyrir Alvogen. Undanfarna mánuði hefur Alvogen lagt mat á ákjósanlega staðsetningu fyrir starfsemina og mun ákvörðun liggja fyrir á næstu vikum.

Meðal stjórnenda hjá Alvogen eru Robert Wessman og Svafa Grönfeldt. Róbert er þar forstjóri og stjórnarformaður en Svafa er þróunarstjóri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK