„Holland verður að yfirgefa evruna eins fljótt og auðið er,“ segir Frits Bolkestein, fyrrverandi yfirmaður innrimarkaðsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í samtali við hollenska dagblaðið Algemeen Dagblad og bætir því við að evrópska myntbandalagið hafi algerlega misheppnast.
Bolkestein segir að evran hafi virkað eins og svefnlyf og stuðlað að því að Evrópusambandið hafi sofnað á verðinum í stað þess að hugsa um að auka samkeppnishæfni sambandsins. Hann segir að leggja eigi evruna niður og þess í stað leggja áherslu á að styrkja innri markað sambandsins. „Við þurfum ekki evruna til þess.“ Bolkestein telur að í stað evrusvæðisins ætti að koma á myntbandalgi sterkustu hagkerfa Evrópusamabndsins.
Bolkestein sat í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frá 1999 til 2004 en áður hafði hann meðal annars setið á hollenska þinginu fyrir hægriflokkinn VVD auk þess sem hann gegndi um tíma embættum varnarmálaráðherra og aðstoðarefnahagsráðherra Hollands.