Hvað einkennir fremstu forstjórana?

Íslenskir forstjórar eru með símann gróinn við lófann - og …
Íslenskir forstjórar eru með símann gróinn við lófann - og þrælar tölvupóstsins að því er einn þeirra segir. AFP

Þau vakna snemma, eru sítengd tölvupóstinum, á þönum milli funda og fljúga milli heimsálfa á daginn og vinna svo heima á kvöldin. Mbl.is fékk að skyggnast inn í líf forstjóra nokkurra fremstu fyrirtækja landsins og komst m.a. að því að líkamsræktin á það til að sitja á hakanum í dagsins önn en að helgarnar eru nýttar til heilsuræktar, með fjölskyldu og vinum - en líka til vinnu. 

„Sumir segja að síminn sé gróinn fastur við höndina á mér en hann er það fyrsta sem ég gríp til á morgnana,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

„Ég hef það á tilfinningunni að ég sé þræll tölvupóstsins en ekki öfugt,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, og hinir forstjórarnir hafa sömu sögu að segja - þeir eru sítengdir tölvupóstinum.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir að líkamsræktin felist m.a. í því að fara út að ganga með besta vininn, hann Kút. „Sófinn er samt alltaf jafn álitlegur,“ viðurkennir hann jafnframt.

„Ég dríf mig alltaf strax á fætur á virkum dögum, oftast áður en klukkan hringir,“ segir Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis. Þetta virðist vera meðal þess sem einkennir forstjóra fyrirtækis í fremstu röð miðað við svörin hér að neðan.

Öll vinna þau heima á kvöldin og um helgar. Og vinnudagurinn er langur - þó það sé misjafnt milli daga. Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, segir að stundum komi tarnir þar sem unnið sé nær allan sólarhringinn.

„Þá daga var ég vöknuð um 6 og komin heim klukkan 22-23 á kvöldin,“ segir Liv um nýlega vinnutörn. „Aldurinn er aðeins farinn að segja til sín og eftir slíkar tarnir er mikilvægt að nota helgarnar til að hvílast.“ 

Birna Einarsdóttir - bankastjóri Íslandsbanka

Klukkan hvað vaknar þú á morgnana á virkum dögum?

Flesta morgna vakna ég kl. 7:30 en tvisvar í viku ríf ég mig á lappir klukkustund fyrr til að fara í leikfimi. Við erum átta vinkonur sem mætum til einkaþjálfara. Ástæðan fyrir því að við erum svona margar er að við vinnum engin verðlaun fyrir mætingu og því þótti þetta hæfileg stærð á hópi svo að einkaþjálfarinn yrði ekki einn á æfingum. Þjálfarinn okkar er hörð í horn að taka enda Norðurlandameistari í bekkpressu. Það dugir ekkert minna fyrir þennan hóp sem er ekki alltaf auðveldur viðureignar.

 Ertu fljót á fætur eða nýtur þú þess að „blunda“?

Ég er nokkuð fljót fram úr á morgnana þó að mér finnist ægilega notalegt að leggja mig þegar færi gefst. Ég legg líka töluvert upp úr því að lesa blöðin áður en ég mæti í vinnuna þar sem starfið mitt krefst þess að ég sé vel inni í þjóðfélagsumræðunni. Svo verður sífellt tímafrekara með árunum að hafa sig til á morgnana. Það er því nóg að gera hjá mér í morgunsárið.

 Hvað er það fyrsta sem þú gerir eftir að þú vaknar?

Sumir segja að síminn sé gróinn fastur við höndina á mér en hann er það fyrsta sem ég gríp til á morgnana. Fjölskyldan mín er í sífelldri samkeppni um athygli við símann sem getur verið ansi þreytandi fyrir þau.

 Klukkan hvað ertu mætt á skrifstofuna?

Ég er ekki ein þeirra sem kem fyrir allar aldir í vinnuna þar sem dagurinn á það til að lengjast í hinn endann. Ég er yfirleitt mætt klukkan 8:30.

Hvenær svarar þú tölvupóstum?

Ég er bókuð á fundi alla daga. Ég svara yfirleitt tölvupóstum eftir að vinnudegi lýkur en freistast oft til að svara tölvupóstum á fundum sem er frekar óvinsælt hjá samstarfsfólki mínu enda ekki góður fundarsiður.

 Hvenær ertu yfirleitt komin heim á kvöldin?

Það er allur gangur á því en sjaldnast mikið seinna en klukkan átta.

 Vinnur þú heiman frá þér á kvöldin?

Dagarnir eru misjafnir og verkefnin líka. Ég vildi stundum að það væru fleiri klukkustundir í sólarhringnum því dagurinn nægir oftast ekki til að klára þau verkefni sem liggja fyrir. Það er ekki óalgengt að það séu símafundir á kvöldin til að klára þá fundi sem nást ekki yfir daginn. Ég er umkringd af skemmtilegu fólki, bæði í vinnunni og einkalífinu, sem gerir það líka að verkum að mér leiðist aldrei og tíminn flýgur áfram.

 Hvenær ferðu að sofa?

Í eðli mínu er ég kvöldsvæf og færi létt að með að sofna á sama tíma og ungabörn en vinnunnar vegna næst það ekki. Ég fer yfirleitt alltof seint að sofa.

 Hvernig eru helgarnar þínar?

 Ég reyni að nýta frítíma minn vel með fjölskyldu og vinum. Vinnan er þó aldrei langt undan. Ef ekkert er um að vera og ég gæti nýtt tímann til að slaka á er ég ekki lengi að koma mér út úr því og býð þá gjarnan um 10 manns í mat. Hvíld er líka fólgin í tilbreytingu en kvöldstund með góðum vinum er oft betri en heill nætursvefn. 

Björgólfur Jóhannsson - forstjóri Icelandair Group

Klukkan hvað vaknar þú á morgnana á virkum dögum?

Klukkan hringir fyrir kl. 7 á virkum dögum.

 Ertu fljótur á fætur eða nýtur þú þess að „blunda“ smá?

Næ oftast að rífa mig á fætur strax en mér finnst samt mjög gott að taka smá lúr áfram.

 Hvað er það fyrsta sem þú gerir eftir að þú vaknar?

Fyrst af öllu er það sturtan, snyrting og svo framvegis. Eftir að fötin eru komin á sinn stað er það lýsið fyrst af öllu, smá súrmjólk eftir það – blöðin lesin og samhliða tölvupóstur. Skoða þróun á olíuverði og gengi gjaldmiðla, innflæði dagsins á undan skoðað.

 Klukkan hvað ertu mættur á skrifstofuna?

Misjafnt en reyni oftast að vera kominn fyrir 8.30.

 Hvenær svarar þú tölvupóstinum?

Ég reyni að svara tölvupóstum jafnharðan og þeir berast en það tekst auðvitað ekki alltaf vegna fundarhalda og svo framvegis. Á jafnt við kvölds og morgna, virka daga sem helgar.

 Hvenær ertu yfirleitt kominn heim á kvöldin?

Mjög misjafnt, reyni oftast að vera kominn heim ekki síðar en kl. 18. Það tekst hins vegar ekki alltaf.

 Vinnur þú heiman frá þér á kvöldin?

Vinn alltaf heima á kvöldin í tölvupóstum og þeim verkefnum sem liggja fyrir næsta dag og næstu daga.

 Hvenær ferðu að sofa?

Reyni að vera kominn í bólið ekki síðar en á miðnætti.

 Hvernig eru helgarnar – vinnur þú, stundar hreyfingu eða ert með fjölskyldunni?

Alltaf í bland, vinn oftast eitthvað um helgar, oft fundir og annað sem til fellur.

 Hvenær dags stundar þú líkamsrækt og hvaða?

Þegar ég fer í líkamsrækt er það oft í hádeginu eða snemma morguns, hef reyndar ekki farið í ræktina frá því í lok nóvember vegna smá bakvandræða. Svo er gott að fara út að ganga með besta vininum mínum honum Kút, svo kemur golfið á sumrin. Sófinn er samt alltaf jafn álitlegur.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir - forstjóri Actavis

Klukkan hvað vaknar þú á morgnana á virkum dögum? 

Ég vakna yfirleitt tæplega sjö.

 Ertu fljót á fætur eða nýtur þú þess að „blunda“?

Dríf mig alltaf strax á fætur á virkum dögum, oftast áður en klukkan hringir.

 Hvað er það fyrsta sem þú gerir eftir að þú vaknar?

Bursta tennurnar – læt símann bíða til ca. hálf átta.

 Klukkan hvað ertu mætt á skrifstofuna?

Upp úr kl. 8 – reyni að hlusta á 8-fréttirnar á leiðinni í vinnuna.

 Hvenær svarar þú tölvupóstinum?  

Byrja og enda yfirleitt daginn á því, en reyni líka að afgreiða málin jöfnum höndum, einkum það sem ekki tekur langan tíma.

 Hvenær ertu komin heim á kvöldin?

Um sex-leytið yfirleitt.

 Vinnur þú heiman frá þér á kvöldin?

Kíki oftast eitthvað í tölvuna, en mjög mismunandi hve langan tíma ég nota í það.

 Hvenær ferðu að sofa?

Upp úr miðnætti yfirleitt.

 Hvernig eru helgarnar hjá þér?

Reyni að taka mér frí eftir því sem hægt er og eyða tímanum með fjölskyldunni. Förum stundum í gönguferðir eða golf á sumrin.

Jón Sigurðsson - forstjóri Össurar

Klukkan hvað vaknar þú á morgnana á virkum dögum?

 Ég bý á vesturströnd Bandaríkjanna og er alltaf að vinna austur fyrir mig. Af þeim sökum vakna ég yfirleitt á milli kl 4-5 á morgnana. Ég hef ekki álitið mig mikinn morgunmann en þetta venst furðu vel og mér finnst þetta ekki mikið mál. Hins vegar ferðast ég yfir 150 daga á ári þannig að á ferðalögum riðlast þetta talsvert mikið og fer það aðallega eftir ferðaplani hverju sinni hvenær ég vakna.

 Ertu fljótur á fætur eða nýtur þú þess að „blunda“?

Konan mín heldur því fram að ég sé kominn í sturtu 10 sekúndum eftir að ég vakna. Ég veit ekki hvort það er rétt en ég er frekar fljótur á fætur og fæ mér ekki aukablund eftir að ég vakna.

Hvað er það fyrsta sem þú gerir eftir að þú vaknar? 

Það fyrsta sem ég geri er að skoða tölvupóstinn og ef ég er heima þá er ég talsvert mikið á símafundum snemma á morgnana og er með góða aðstöðu sem ég get unnið í án þess að trufla fjölskylduna á þessum „ókristilega“ tíma.

 Klukkan hvað ertu mættur á skrifstofuna?

Hér í Bandaríkjunum er ég yfirleitt mættur klukkan 7 á morgnana en á Íslandi kl 9.

Hvenær svarar þú tölvupóstinum?

Ég skoða tölvupóstinn allan daginn og margar tilraunir í þá átt að setja til hliðar sérstakan tíma hafa allar runnið út í sandinn. Ég hef það á tilfinningunni að ég sé þræll tölvupóstsins en ekki öfugt.

Hvenær ertu yfirleitt kominn heim á kvöldin?

Þegar ég er hér í Bandaríkjunum þá er ég yfirleitt kominn heim á milli klukkan fjögur og fimm. Þegar ég er á Íslandi þá er ég búinn talsvert seinna.

Vinnur þú heiman frá þér á kvöldin?

Þegar ég er í Bandaríkjunum þá þagnar síminn klukkan 4 eða um það leyti sem ég fer heim úr vinnunni. Þegar ég er á Íslandi og í Evrópu þá er þessu öðruvísi farið og ég er talsvert í símanum fram eftir kvöldi.

Hvenær ferðu að sofa?

Best er ef ég fer að sofa kl. 10, en það tekst ekki alltaf. Ég reyni að stýra vinnutengdum kvöldverðum þannig að það takist ef ég mögulega get.

 Hvernig eru helgarnar þínar?

 Þegar ég er heima um helgar reyni ég að halda mig sem mest frá vinnu og vera með fjölskyldunni. Drjúgur tími helganna fer í fótboltaæfingar og leiki hjá strákunum mínum og ég nýt þess líkt og þeir.

 Stundar þú líkamsrækt?

Þetta er mín veika hlið. Ég reyni að stunda líkamsrækt tvisvar til þrisvar sinnum í viku og þá oftast eftir vinnu vegna þess hve dýrmætur fundartíminn er snemma á morgnana. Hinsvegar á ég mjög erfitt með að stunda líkamsrækt á ferðalögum þó svo ég viti hve mikilvægt það er.

Liv Bergþórsdóttir - forstjóri Nova

Klukkan hvað vaknar þú á morgnana á virkum dögum? 

Það er misjafnt en oftast um kl. 7 eða 7.30.

Ertu fljót á fætur eða nýtur þú þess að „blunda“?

Ég er fljót á fætur um leið og það fer að birta en þeim mun verri skammdegismánuðina.

Hvað er það fyrsta sem þú gerir eftir að þú vaknar?

Ég læt renna í bað og tek 5-10 mínútur slökun í karinu. Stefnan er tekin á morgunhlaup eða morgunsund með hækkandi sól.

Ég tékka á tölvupóstinum í símanum og dagskrá dagsins áður en ég fer út úr dyrunum.

Klukkan hvað ertu mætt á skrifstofuna?

Ég er oftast mætt um kl. 9.

Hvenær svarar þú tölvupóstinum?

Ég svara tölvupósti á öllum tímum sólarhringsins, ég er sítengd pósthólfinu.

Hvenær ertu yfirleitt komin heim á kvöldin?

Það er misjafnt, stundum snemma og stundum seint. Stundum koma vinnutarnir eins og í kringum 4G þjónustuna sem við hjá Nova vorum að setja í loftið. Þá var stór hópur starfsmanna sem vann nánast allan sólarhringinn í marga daga.

Þá daga var ég vöknuð um 6 og komin heim klukkan 22-23 á kvöldin. Aldurinn er aðeins farinn að segja til sín og eftir slíkar tarnir er mikilvægt að nota helgarnar til að hvílast.

Vinnur þú heiman frá þér á kvöldin? 

Já, ég vinn mikið heima, finnst það mjög gott. Ég vinn eitthvað flest kvöld og um helgar.

Hvenær ferðu að sofa?

Það er líka mjög misjafnt, ég er lítil rútínu manneskja. Ég sef ef til vill lítið í nokkra daga og vinn það svo upp með þeim mun lengri svefni aðra daga.

Hvernig eru helgarnar þínar?

Ég vinn oftast eitthvað um helgar og þá bara heima. Ég er nýlega byrjuð í námi sem krefst þess að ég noti helgarnar eitthvað í lestur.  Ég er nokkuð mikið erlendis en ef við erum heima fjölskyldan þá tökum við því rólega um helgar.

Við förum saman í sund á laugardags- og/eða sunnudagsmorgnum, sá yngsti kemur alltaf með en þeir eldri heiðra okkur stöku sinnum með nærveru sinni.

Ég er ekki nægilega dugleg að hreyfa mig yfir vikuna og reyni því að nota helgarnar í sund, göngu og er nýlega byrjuð að reyna að hlaupa! Um helgar förum við svo líka oft í mat til vinafólks eða fáum gesti í mat. 

Íslenskir forstjórar vakna snemma - sumir áður en að vekjaraklukkan …
Íslenskir forstjórar vakna snemma - sumir áður en að vekjaraklukkan hringir. AFP
Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, segir nóg að gera hjá sér …
Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, segir nóg að gera hjá sér í morgunsárið. mbl.is
Birna reynir að mæta reglulega til einkaþjálfarans á morgnana.
Birna reynir að mæta reglulega til einkaþjálfarans á morgnana.
Birna bankastjóri er ofast mætt á skrifstofuna um kl. 8.30.
Birna bankastjóri er ofast mætt á skrifstofuna um kl. 8.30. mbl.is/Ómar Óskarsson
Birna segir að síminn sé eins gróinn við höndina á …
Birna segir að síminn sé eins gróinn við höndina á sér. AFP
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Golli
Björgólfur þarf að fylgjast mjög vel með þróun olíuverðs.
Björgólfur þarf að fylgjast mjög vel með þróun olíuverðs. Reuters
Björgólfur tekur lýsið á hverju morgni.
Björgólfur tekur lýsið á hverju morgni.
Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis, sprettur á fætur áður en …
Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis, sprettur á fætur áður en klukkan hringir.
Á sumrin reynir Guðbjörg að komast í golf.
Á sumrin reynir Guðbjörg að komast í golf. mbl.is
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, er á ferðalagi um 150 daga …
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, er á ferðalagi um 150 daga á ári. mbl.is
Jón vinnur töluvert heima í tölvunni.
Jón vinnur töluvert heima í tölvunni. AFP
Jón Sigurðsson segir að um helgar fari drjúgur tími í …
Jón Sigurðsson segir að um helgar fari drjúgur tími í að fylgjast með leikjum og fótboltaæfingum hjá sonunum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Liv Bergþórsdóttir forstjóri Nova á skrifstofunni.
Liv Bergþórsdóttir forstjóri Nova á skrifstofunni. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK