Fríverslunarsamningur Íslands og Kína undirritaður

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, utanríkisviðskiptaráðherra Kína undirrita fríverslunarsamninginn.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, utanríkisviðskiptaráðherra Kína undirrita fríverslunarsamninginn.

Össur Skarp­héðins­son, ut­an­rík­is­ráðherra, og Gao Hucheng, viðskiptaráðherra Kína, und­ir­rituðu í dag í Pek­ing fríversl­un­ar­samn­ing milli Íslands og Kína að viðstödd­um for­sæt­is­ráðherr­um ríkj­anna. Þetta er fyrsti fríversl­un­ar­samn­ing­ur sem Evr­ópu­ríki ger­ir við Kína og veit­ir ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um og út­flutn­ings­grein­um for­skot á ört vax­andi Kína­markað.

„Þetta er sögu­leg­ur samn­ing­ur sem mun skapa störf á Íslandi eins og þegar eru kom­in fram dæmi um í þess­ari ferð, og opna ótal tæki­færi fyr­ir ís­lenskt at­vinnu­líf og út­flutn­ing,” er haft eft­ir Öss­uri Skarp­héðins­syni ut­an­rík­is­ráðherra, í frétta­til­kynn­ingu frá ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu. „Fríversl­un við Kína gef­ur ís­lensk­um fyr­ir­tæk­um sér­stakt for­skot inn á þann markað heims­ins sem vex lang­hraðast. Sú staðreynd að Ísland er fyrsta Evr­ópu­ríkið sem nær slík­um samn­ingi við Kína skap­ar ís­lensku at­vinnu­lífi ein­stakt for­skot.  Það sjá­um við strax á þeim samn­ing­um sem ís­lensku fyr­ir­tæk­in eru að gera hér í þess­ari ferð okk­ar til Kína.“  

Helsti ávinn­ing­ur fríversl­un­ar­samn­ings­ins við Kína er niður­fell­ing tolla á öll­um helstu út­flutn­ingsaf­urðum Íslands. Þar með er mikl­um hindr­un­um rutt úr vegi út­flutn­ings ís­lenskr­ar fram­leiðslu til Kína, seg­ir í frétt ráðuneyt­is­ins.

All­ar sjáv­ar­af­urðir verða þannig toll­frjáls­ar, flest­ar strax eft­ir gildis­töku samn­ings­ins, en ör­fá­ar að lokn­um 5 eða 10 ára aðlög­un­ar­tíma. Al­geng­ir toll­ar á þeim, og mörg­um öðrum mik­il­væg­um afurðum sem Ísland flyt­ur út, hafa verið á bil­inu 10-12%. Með samn­ingn­um er líka skapaður vett­vang­ur þar sem ís­lensk stjórn­völd geta  tekið upp öll þau vand­kvæði sem upp kunna að koma í viðskipt­um ríkj­anna. Líkt og í öðrum fríversl­un­ar­samn­ing­um fell­ir Ísland á móti niður tolla á inn­flutt­um vör­um, að und­an­skild­um ákveðnum land­búnaðar­af­urðum. Þannig skap­ast skil­yrði fyr­ir lægra verð til ís­lenskra neyt­enda á þeim vör­um sem flutt­ar eru inn frá Kína og bera tolla í dag.

Fríversl­un­ar­samn­ing­ur­inn við Kína er að upp­bygg­ingu og inni­haldi sam­bæri­leg­ur öðrum samn­ing­um sem Ísland hef­ur gert sem aðild­ar­ríki EFTA. Hann kveður meðal ann­ars á um vöru- og þjón­ustu­viðskipti, upp­run­a­r­egl­ur og hug­verka­vernd. Ekki var samið um auk­inn aðgang kín­verskra starfs­manna og þjón­ustu­veit­enda til Íslands og um hann munu gilda sömu lög og regl­ur og áður. Eng­ar breyt­ing­ar verða á regl­um um fjár­fest­ing­ar en frá 1994 er í gildi samn­ing­ur um vernd gag­kvæmra fjár­fest­inga. Samn­ing­ur­inn kveður hins veg­ar á um að rík­in skuli auka sam­starf sitt svo sem á sviði um­hverf­is­vernd­ar og vinnu­mála.

Á fund­in­um, þar sem Össur Skarp­héðins­son, ut­an­rík­is­ráðherra, og Gao Hucheng, viðskiptaráðherra und­ir­rituðu fríversl­un­ar­samn­ing­inn voru sömu­leiðis und­ir­ritaðir fimm viðskipta­samn­ing­ar milli ís­lenskra og kín­verskra fyr­ir­tækja, og aðrir fimm verða und­ir­ritaðir síðar í ferðinni. Þeir samn­ing­ar sem und­ir­ritaðir voru í dag voru á milli Ari­on banka og Þró­un­ar­banka Kína, Orku Energy og Sin­opec og Þró­un­ar­banka Kína, Mar­orku og Rann­sókn­ar­stofn­un­ar um orku­sparnað skipa­véla, Öss­ur­ar hf. og End­ur­hæf­ing­ar- og fötl­un­ar­sam­bands Kína, og Pró­mens og Héraðsstjórn­ar­inn­ar í Taicang.

Verðmæti út­flutn­ings 7,6 millj­arðar króna

Verðmæti út­flutn­ings frá Íslandi til Kína nam á síðasta ári 7,6 millj­örðum króna og hafði þá tvö­fald­ast milli ár­anna 2010 og 2012. Kín­versk­um ferðamönn­um til Íslands fjölg­ar einnig jafnt og þétt en ferðaþjón­usta er vax­andi þátt­ur í viðskipt­um ríkj­anna.

„Það er marks um mik­il­vægi þessa samn­ings sem undi­ritaður var í dag að með í för eru yfir fimm­tíu full­trú­ar frá um tutt­ugu kraft­mikl­um ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um, stór­um og smá­um. Við höf­um haft í nógu að snú­ast í ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu og sendi­ráði Íslands í Kína að svara fyr­ir­spurn­um og greiða götu þeirra fjöl­mörgu sem eru ein­beitt­ir í að nýta þau tæki­færi sem hér eru að skap­ast,“ seg­ir ut­an­rík­is­ráðherra í til­kynn­ing­unni.

Í til­efni af und­ir­rit­un­inni gáfu for­sæt­is­ráðherr­ar Íslands og Kína út sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu um aukna sam­vinnu ríkj­anna. Sam­kvæmt henni er reglu­bundið sam­ráð ríkj­anna um póli­tísk mál­efni form­fest þar sem meðal ann­ars verður fjallað um mann­rétt­inda­mál, jafn­rétt­is­mál, vinnu­mál, mál­efni norður­slóða, sem og sam­vinnu ríkj­anna á sviði jarðvarma, menn­ing­ar­mála, mennta­mála og ferðaþjón­ustu.

Á morg­un verður haldið viðskiptaþing í Pek­ing þar sem Össur Skarp­héðins­son, ut­an­rík­is­ráðherra, mun fjalla um þau tæki­færi sem samn­ing­ur­inn fel­ur í sér. Þar verða und­ir­ritaðir nokkr­ir viðskipta­samn­ing­ar milli ís­lenskra og kín­verskra fyr­ir­tækja.

Nán­ari upp­lýs­ing­ar um samn­ing­inn, til­urð hans og meg­in­efni er að finna á heimasíðu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins. Samn­ing­ur­inn hef­ur verið birt­ur í heild sinni á vef ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins í dag.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, utanríkisviðskiptaráðherra Kína.
Össur Skarp­héðins­son, ut­an­rík­is­ráðherra, og Gao Hucheng, ut­an­rík­is­viðskiptaráðherra Kína.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka