Laun forstjóra og stjórnarformanns tæknirisans Panasonic verða lækkuð um 50%. Er þetta gert til að sýna fram á að þeir beri ábyrgð á slæmu gengi fyrirtækisins.
Forstjórinn Kazuhiro Tsuga og stjórnarformaðurinn Fumio Ohtsubo hafa endurgreitt um 40% launa sinna í hverjum mánuði frá því í nóvember. Það hafa þeir valið sjálfir að gera. Aðrir stjórnendur fyrirtækisins hafa endurgreitt um 20% launa sinna, segir talsmaður fyrirtækisins.
En í júlí verður þessi launalækkun skjalfest og opinber. Það gildir um alla stjórnendur fyrirtækisins en lækkunin verður mismikil þó.
Tæknigeirinn í Japan hefur þurft að þola mikinn samdrátt undanfarna mánuði. Verð hefur lækkað og samkeppni á alþjóðamarkaði aukist.
Panasonic gerir ráð fyrir miklu tapi á fyrsta ársfjórðungi ársins. Fyrirtækið er í viðræðum við stéttarfélög um almenna launalækkun hjá öllum starfsmönnum fyrirtækisins.