Óttast að ólík efnahagsþróun ríkja hamli bata

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) óttast að ólík efnahagsþróun helstu ríkja heims geti haft hættulegar afleiðingar í för með sér fyrir efnahagsbata í heimshagkerfinu. Í nýrri skýrslu sjóðsins, World Economic Outlook, kemur fram að hagvaxtarhorfur hafi versnað til skemmri tíma. Hins vegar hefur sjóðurinn væntingar um öflugri efnahagsbata á seinni helmingi þessa árs.

Þrátt fyrir að sjóðurinn sé þeirrar skoðunar að aðgerðir stefnusmiða beggja vegna Atlantsála hafi dregið úr neikvæðum áhrifum alþjóðlegu fjármálakreppunnar fyrir raunhagkerfið þá telur AGS ástandið enn vera mjög brothætt. Í skýrslunni er vakin athygli á því að á sama tíma og hagvöxtur sé öflugur í flestum nýmarkaðs- og þróunarlöndum þá sé annað uppi á teningnum hjá ríkari þjóðum heims – ekki síst á evrusvæðinu. Oliver Blinchard, aðalhagfræðingur AGS, bendir á að það sé einkum áhyggjuefni að svo virðist sem leiðir séu að skilja á milli Bandaríkjanna og evrusvæðisins hvað varðar ástand efnahagsmála og fjármálakerfisins.

AGS lækkar spá sína frá því í janúar fyrir hagvöxt á heimsvísu úr 3,5% í 3,3% en á næsta ári mun hagvöxtur aukast nokkuð og mælast 4%. Sjóðurinn telur að hagvöxtur verði minni á þessu ári í öllum stærstu hagkerfum heimsins – fyrir utan Japan – en gert var ráð fyrir í upphafi árs. Samdráttur mun mælast 0,3% á evrusvæðinu og hagvöxtur verður aðeins rétt yfir 1% á árinu 2014. Í Bandaríkjunum gerir AGS aftur á móti ráð fyrir 1,9% hagvexti á þessu ári og 3% vexti ári síðar.

Til meðallangs tíma stafar heimshagkerfinu mest hætta af annars vegar skulda- og bankakreppunni á evrusvæðinu og hins vegar hvort ráðamönnum í Bandaríkjunum og Japan muni takast að grynnka á skuldum hins opinbera og lækka fjárlagahallann. Að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er ekki til nein ein „töfralausn“ til hvaða aðgerða eigi að grípa til að stemma stigu við minnkandi eftirspurn og draga úr miklum ríkisskuldum. AGS telur aftur á móti mikilvægt að stjórnvöld í Japan og Bandaríkjunum leggi aukna áherslu á að minnka halla á rekstri ríkisins. Á evrusvæðinu hvetur sjóðurinn þau ríki sem séu í þeirri stöðu að hafa til þess fjárhagslegt svigrúm – með öðrum orðum Þýskaland – til að örva neyslu og eftirspurn í hagkerfinu. AGS ráðleggur hins vegar Bretum að „íhuga“ það að draga úr umfangsmiklum niðurskurðaráformum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK