Seðlabankastjóri Þýskalands, Jens Weidmann, telur að efnahagserfiðleikarnir á evrusvæðinu eigi eftir að standa yfir næsta áratuginn. Hann lét þessi orð falla í viðtali við bandaríska viðskiptablaðið Wall Street Journal í gær.
Weidmann hvatti stjórnvöld í evruríkjum til þess að halda áfram að koma á nauðsynlegum umbótum í hagkerfum sínum og varaði við því að slaka á í þeim efnum.
Þá gagnrýndi hann það að sífellt væri verið að spyrja hvað Evrópski seðlabankinn gæti gert vegna efnahagskrísunnar en ekki stjórnvöld í ríkjunum.