Stækkun CCP, framleiðanda EVE Online tölvuleiksins, hefði getað orðið hraðari og hægt hefði verið að koma í veg fyrir fjölda mistaka. Þetta sagði Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, á Nýsköpunarþingi í morgun, en hann taldi þó mistökin nauðsynleg og að það væru þau sem skilgreindu fyrirtækið, en ekki árangurinn.
Í fyrirlestri sínum lagði hann áherslu á að þrátt fyrir mistök væri ekki alltaf um að ræða tapaða peninga og nefndi í því samhengi að um 300 milljónir hefðu verið settar í OZ á sínum tíma sem svo skiluðu sér ekki í það verkefni. Það fjármagn hafi aftur á móti leitt til þess að til varð hæft starfsfólk hér á landi, sem seinna kom að stórum hluta yfir til CCP. „Það er ekki séns að við hefðum getað gert CCP ef við hefðum ekki unnið hjá OZ áður,“ sagði Hilmar.
Hann sagði að það tímabil í sögu fyrirtækisins sem hefði mátt skauta hraðar yfir væru árin frá aldamótum til 2004. „Það vantaði meira af menntuðu fólki og meiri skilningur fjárfesta, meðal annars vegna þess að hæft starfsfólk fór í bankana á þessum tíma,“ segir Hilmar. Hann telur að meiri skilningur fjárfesta hefði bæði getað stytt þetta tímabil og komið í veg fyrir að leikurinn hafi komið nokkuð gallaður út í fyrstu.
Næstu fjögur ár sem þar fylgdu í kjölfarið voru einnig nokkuð þjökuð vegna starfsmannamála, en Hilmar tilgreindi sérstaklega skriffinnskuvandamál í því samhengi og erfiðleika við að fá sérhæfða erlenda starfsmenn hingað til lands. „Ég get ekki undirstrikað það nógu mikið hversu erfitt var að flytja erlenda sérfræðinga til landsins. Því ef maður hafði ekki sérhæft starfsfólk inni í landinu, þá var eina leiðin til að skala upp að ráða inn sérfræðing og þrjá starfsnema og búa til mentornet.“
Hilmar segir að þetta hafi verið mjög flókið fyrir fyrirtækið og nefnir í því samhengi vandamál við að ráða ómenntaðan starfsmann frá Suður-Afríku, sem hafði margra ára reynslu úr tölvuleikjageira. Þá hafi það verið mun erfiðara að ráða Bandaríkjamann en að flytja inn kórala sem settir voru í fiskabúr á skrifstofu CCP. Þess má geta að kóralar eru alþjóðlega verndaðir, en starfsleyfi fyrir bandarískan skrifstofumann var töluvert erfiðara.
Í næstu viku fer fram aðdáendahátíð EVE í Hörpunni og sagði Hilmar að ekki mætti horfa framhjá þeim áhrifum sem tölvuleikurinn væri byrjaður að hafa hér á landi. Segir hann að margfeldisáhrifin af því að notendur EVE komi til landsins, kaupi sér mat, drykki og ullarpeysur, sé um 1 milljarður.
Bloomberg fréttaveitan fjallar um leikinn á vefútgáfu sinni í dag, en þar er sögu leiksins gerð góð skil og rætt við nokkra af leiðtogunum í leiknum sem hafa komið hingað til lands.