Friðrik J. Arngrímsson mun á næstunni hætta sem framkvæmdastjóri LÍÚ, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, en hann hefur starfað hjá félaginu síðastliðin þrettán og hálft ár. Í samtali við mbl.is segir Friðrik að hann telji þetta vera orðinn góðan tíma í starfi og nú sé orðið tímabært að skipta um starfsvettvang.
Í bréfi til aðila LÍÚ þakkar hann meðlimum sambandsins fyrir samstarfið og greinir frá því að framkvæmdaráð LÍÚ muni á næstunni ákveða hvernig staðið verði að ráðningu nýs framkvæmdastjóra.
Segir Friðrik að hann muni starfa áfram þangað til nýr framkvæmdastjóri verði fundinn og hann hafi komist inn í starfið. Hann segir að nú sé komið að ákveðnum skilum, en að tíminn hjá Landssamtökunum hafi verið góður.