Afþreyingarfyrirtækið Sena hefur samið við tónlistarveituna Spotify, sem hóf þjónustu hér á landi í vikunni, um dreifingu á íslenskri tónlist sem hefur komið út á vegum Senu á stafrænu sniði. Verður tónlistin bæði aðgengileg áskrifendum Spotify á Íslandi og um allan heim.
Í tilkynningu frá Senu kemur fram að Spotify sé nú þegar í lykilstöðu á stafrænum tónlistarmarkaði víða um heim, þar sem notendur geti hlustað á ótakmarkað magn tónlistar gegn vægu gjaldi. Gert er ráð fyrir að innan sex vikna verði stærstur hluti safns Senu kominn á vef Spotify.