Brostnar vonir um hagvöxt

Dregið hefur úr einkaneyslu síðustu mánuðina.
Dregið hefur úr einkaneyslu síðustu mánuðina. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vöxt­ur efna­hags­lífs­ins er hæg­ari á þessu ári en spár gerðu ráð fyr­ir. Þetta sést m.a. af því að töl­ur um korta­veltu benda til þess að einka­neysla hafi dreg­ist sam­an á fyrstu mánuðum árs­ins, skatt­tekj­ur eru minni en gert var ráð fyr­ir í fjár­lög­um og spár um hag­vöxt hafa ekki gengið eft­ir.

Seðlabank­inn birti ný­lega töl­ur um korta­veltu í mars. De­bet­korta­velta í mars var 4,4% minni í krón­um talið en í sama mánuði í fyrra. Kred­it­korta­velta jókst hins veg­ar um 3,4% á sama kvarða mælt. Grein­ing Íslands­banka bend­ir á að mik­il fylgni er milli raunþró­un­ar korta­veltu ein­stak­linga og einka­neyslu hér á landi, enda korta­notk­un út­breidd­ari hér­lend­is en víðast hvar ann­ars staðar. „Ef tek­in er sam­an heild­ar kred­it­korta­velta og de­bet­korta­velta í inn­lend­um versl­un­um kem­ur í ljós að korta­velta á þann kvarða dróst sam­an að raun­gildi um 2,3% í mars frá sama mánuði í fyrra. Er þetta at­hygl­is­vert í ljósi þess að de­bet­korta­velt­an í mars náði þetta árið að mestu yfir páskafrí lands­manna, þegar ætla mætti að heim­il­in gerðu bet­ur við sig en endra­nær.“

Íslands­banki seg­ir þess­ar töl­ur gefi til kynna að einka­neysla á fyrsta fjórðungi árs­ins kunni að hafa dreg­ist sam­an um 1-2% frá sama tíma í fyrra. Yrði það þá í fyrsta sinn frá 2. árs­fjórðungi 2010 sem einka­neysla myndi drag­ast sam­an milli ára.

Kaup­um færri bíla í ár

Minni einka­neysla birt­ist m.a. í bíla­sölu. Sam­kvæmt töl­um Bíl­greina­sam­bands­ins voru flutt­ir inn um 300 færri bíl­ar á fyrstu mánuðum árs­ins en á sama tíma í fyrra. Sam­drátt­ur­inn er um 17%.

Hag­stof­an seg­ir í nýj­ustu hagspá sinni að vís­bend­ing­ar séu um að það sé að draga úr einka­neyslu, en spá­ir því engu að síður að hún auk­ist um 2,5% í ár. Grein­ing Íslands­banka tel­ur að sú spá sé í „bjart­sýnni kant­in­um“.

Ástæðan fyr­ir því að grein­ing­araðilar horfa mikið á einka­neysl­una er sú að það hef­ur ekki síst verið einka­neysl­an sem drifið hef­ur áfram hag­vöxt hér á landi síðustu ár. Í fyrra reynd­ist hlut­fall einka­neyslu af lands­fram­leiðslu vera 53,6%. Tekið skal fram að hlut­fall var líka hátt fyr­ir hrun og fór raun­ar upp und­ir 60%.

Vont að byggja hag­vöxt bara á einka­neyslu

Það er hins veg­ar hæpið að byggja hag­vöxt til lang­frama á einka­neyslu. Mik­il­væg­ast er að fjár­fest­ing auk­ist, en hún hef­ur auk­ist hægt eft­ir hrun. Fjár­fest­ing jókst ein­ung­is um 4,4% á síðasta ári. Fjár­fest­ing sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu nam 14,4% á ár­inu 2012 og hef­ur þetta hlut­fall verið í sögu­legu lág­marki síðustu fjög­ur árin.

At­vinnu­vega­fjár­fest­ing hef­ur verið minni en von­ast var eft­ir. Raun­ar reikn­ar Hag­stof­an með að at­vinnu­vega­fjár­fest­ing drag­ist sam­an á þessu ári um 10,5% og al­menn fjár­fest­ing um 2,3%.

Það hef­ur hjálpað okk­ur mikið eft­ir hrun að út­flutn­ing­ur hef­ur auk­ist. Útflutn­ing­ur jókst um 3,9% í fyrra. Viðskipta­kjör okk­ar eru hins veg­ar að versna og spáð er aðeins 1,9% aukn­ingu í út­flutn­ingi í ár.

Einka­neysla á óvissu­tím­um

Það þarf ekki að koma á óvart að vöxt­ur í efna­hags­líf­inu sé að minnka. Það eru óvissu­tím­ar framund­an. Kosn­ing­ar fara fram í vor og óvissa rík­ir um hvaða stefnu ný rík­is­stjórn tek­ur í efna­hags­mál­um. Kjara­samn­ing­ar eru laus­ir næsta vet­ur. Það gæti því komið til átaka á vinnu­markaði. Þó verðbólg­an hafi ekki auk­ist á þessu ári, eins og marg­ir óttuðust, er flest­um ljóst að verðbólgu­draug­ur­inn er ein­hvers staðar í fel­um og gæti skot­ist fram af minnsta til­efni.

Það er því eðli­legt að al­menn­ing­ur í land­inu sé ekki til­bú­inn til að auka einka­neyslu við þess­ar aðstæður. Fólk sem er að spá í að kaupa sér bíl eða aðra dýra hluti hugs­ar með sér að betra sé að sjá til hvað ný rík­is­stjórn ger­ir, hvort það verða verk­föll næsta vet­ur og hvort verðbólg­an fer af stað aft­ur, áður en það dreg­ur upp veskið.

Tekj­ur rík­is­sjóðs eru minni en reiknað var með

Minni einka­neysla og minni hag­vöxt­ur eru ekki góð tíðindi fyr­ir þá sem stýra fjár­málaráðuneyt­inu og eru að reyna að ná jöfnuði á rekstri rík­is­sjóðs. Í nýj­asta yf­ir­liti um

kem­ur fram að inn­heimt­ar tekj­ur rík­is­sjóðs eru um 1,4 millj­örðum und­ir tekju­áætlun fjár­laga á fyrstu þrem­ur mánuðum árs­ins.

Stein­grím­ur J. talaði um „æv­in­týra­leg­an vöxt“

Fyrst eft­ir hrun voru birt­ar spár sem gerðu ráð fyr­ir mikl­um sam­drætti í efna­hags­líf­inu. Sam­drátt­ur­inn varð vissu­lega mik­ill, en þó ekki eins mik­ill og svart­sýn­ustu menn reiknuðu með. Þegar kom fram á árið 2010 voru grein­ing­araðilar farn­ir að spá hag­vexti á næstu árum. Árið 2011 spáði Seðlabank­inn 3,1% hag­vexti það ár og 3,2% hag­vexti árið eft­ir.

Árið 2012 ritaði Stein­grím­ur J. Sig­fús­son blaðagrein þar sem hann fjallaði um hag­vöxt milli árs­fjórðunga og sagði að „vöxt­ur­inn [væri] nær æv­in­týra­leg­ur“. Hann lét þess einnig getið þegar hann kynnti fjár­laga­frum­varpið 2012 að reynsla væri oft á þann veg að menn van­mætu hag­vöxt­inn og töl­urn­ar reynd­ust oft hærri þegar all­ar upp­lýs­ing­ar skiluðu sér í hús. Þetta gerðist vissu­lega oft fyr­ir hrun, en það sama hef­ur ekki verið uppi á ten­ingn­um síðustu 2-3 ár.

Það hef­ur því ekki reynst inni­stæða fyr­ir mik­illi bjart­sýni Stein­gríms J. Sam­kvæmt út­reikn­ing­um Hag­stof­unn­ar var hag­vöxt­ur árið 2011 2,9% og í fyrra var hann 1,6%. Fyr­ir ári síðan spáði Hag­stof­an að hag­vöxt­ur í ár yrði 2,5%, en núna spá­ir Hag­stof­an að hann verði 1,9%.

Meiri hag­vöxt­ur í Nor­egi og Banda­ríkj­un­um en á Íslandi

Stein­grím­ur sagði í eld­hús­dagsum­ræðum í fyrra­vor að hag­vöxt­ur á Íslandi væri meiri en í Banda­ríkj­un­um, Jap­an og Nor­egi. Þetta hef­ur ekki reynst rétt. Nýj­ar töl­ur frá Hag­stofu Evr­ópu­sam­bands­ins sýna að hag­vöxt­ur var meiri í Nor­egi og Banda­ríkj­un­um í fyrra en á Íslandi. Því er spáð að það sama verði upp á ten­ingn­um í ár. Það er hins veg­ar rétt hjá hon­um að hag­vöxt­ur í ESB er minni en á Íslandi. Frá því eru þó und­an­tekn­ing­ar. Þannig er tals­vert meiri hag­vöxt­ur í Eystra­saltslönd­un­um þrem­ur en á Íslandi.

Það sem af er ári hafa selst 300 færri bílar …
Það sem af er ári hafa selst 300 færri bíl­ar en á sama tíma í fyrra. mbl.is/Ó​mar Óskars­son
Fjárfesting jókst aðeins um 4,4% á síðasta ári og því …
Fjár­fest­ing jókst aðeins um 4,4% á síðasta ári og því er spáð að hún drag­ist sam­an um 2,3% í ár. mbl.is/​Golli
Tölur sem Steingrímur J. Sigfússon hefur nefnt um hagvöxt á …
Töl­ur sem Stein­grím­ur J. Sig­fús­son hef­ur nefnt um hag­vöxt á síðustu tveim­ur árum hafa ekki gengið gengið eft­ir. mbl.is/​Golli
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK