Brostnar vonir um hagvöxt

Dregið hefur úr einkaneyslu síðustu mánuðina.
Dregið hefur úr einkaneyslu síðustu mánuðina. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vöxtur efnahagslífsins er hægari á þessu ári en spár gerðu ráð fyrir. Þetta sést m.a. af því að tölur um kortaveltu benda til þess að einkaneysla hafi dregist saman á fyrstu mánuðum ársins, skatttekjur eru minni en gert var ráð fyrir í fjárlögum og spár um hagvöxt hafa ekki gengið eftir.

Seðlabankinn birti nýlega tölur um kortaveltu í mars. Debetkortavelta í mars var 4,4% minni í krónum talið en í sama mánuði í fyrra. Kreditkortavelta jókst hins vegar um 3,4% á sama kvarða mælt. Greining Íslandsbanka bendir á að mikil fylgni er milli raunþróunar kortaveltu einstaklinga og einkaneyslu hér á landi, enda kortanotkun útbreiddari hérlendis en víðast hvar annars staðar. „Ef tekin er saman heildar kreditkortavelta og debetkortavelta í innlendum verslunum kemur í ljós að kortavelta á þann kvarða dróst saman að raungildi um 2,3% í mars frá sama mánuði í fyrra. Er þetta athyglisvert í ljósi þess að debetkortaveltan í mars náði þetta árið að mestu yfir páskafrí landsmanna, þegar ætla mætti að heimilin gerðu betur við sig en endranær.“

Íslandsbanki segir þessar tölur gefi til kynna að einkaneysla á fyrsta fjórðungi ársins kunni að hafa dregist saman um 1-2% frá sama tíma í fyrra. Yrði það þá í fyrsta sinn frá 2. ársfjórðungi 2010 sem einkaneysla myndi dragast saman milli ára.

Kaupum færri bíla í ár

Minni einkaneysla birtist m.a. í bílasölu. Samkvæmt tölum Bílgreinasambandsins voru fluttir inn um 300 færri bílar á fyrstu mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn er um 17%.

Hagstofan segir í nýjustu hagspá sinni að vísbendingar séu um að það sé að draga úr einkaneyslu, en spáir því engu að síður að hún aukist um 2,5% í ár. Greining Íslandsbanka telur að sú spá sé í „bjartsýnni kantinum“.

Ástæðan fyrir því að greiningaraðilar horfa mikið á einkaneysluna er sú að það hefur ekki síst verið einkaneyslan sem drifið hefur áfram hagvöxt hér á landi síðustu ár. Í fyrra reyndist hlutfall einkaneyslu af landsframleiðslu vera 53,6%. Tekið skal fram að hlutfall var líka hátt fyrir hrun og fór raunar upp undir 60%.

Vont að byggja hagvöxt bara á einkaneyslu

Það er hins vegar hæpið að byggja hagvöxt til langframa á einkaneyslu. Mikilvægast er að fjárfesting aukist, en hún hefur aukist hægt eftir hrun. Fjárfesting jókst einungis um 4,4% á síðasta ári. Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu nam 14,4% á árinu 2012 og hefur þetta hlutfall verið í sögulegu lágmarki síðustu fjögur árin.

Atvinnuvegafjárfesting hefur verið minni en vonast var eftir. Raunar reiknar Hagstofan með að atvinnuvegafjárfesting dragist saman á þessu ári um 10,5% og almenn fjárfesting um 2,3%.

Það hefur hjálpað okkur mikið eftir hrun að útflutningur hefur aukist. Útflutningur jókst um 3,9% í fyrra. Viðskiptakjör okkar eru hins vegar að versna og spáð er aðeins 1,9% aukningu í útflutningi í ár.

Einkaneysla á óvissutímum

Það þarf ekki að koma á óvart að vöxtur í efnahagslífinu sé að minnka. Það eru óvissutímar framundan. Kosningar fara fram í vor og óvissa ríkir um hvaða stefnu ný ríkisstjórn tekur í efnahagsmálum. Kjarasamningar eru lausir næsta vetur. Það gæti því komið til átaka á vinnumarkaði. Þó verðbólgan hafi ekki aukist á þessu ári, eins og margir óttuðust, er flestum ljóst að verðbólgudraugurinn er einhvers staðar í felum og gæti skotist fram af minnsta tilefni.

Það er því eðlilegt að almenningur í landinu sé ekki tilbúinn til að auka einkaneyslu við þessar aðstæður. Fólk sem er að spá í að kaupa sér bíl eða aðra dýra hluti hugsar með sér að betra sé að sjá til hvað ný ríkisstjórn gerir, hvort það verða verkföll næsta vetur og hvort verðbólgan fer af stað aftur, áður en það dregur upp veskið.

Tekjur ríkissjóðs eru minni en reiknað var með

Minni einkaneysla og minni hagvöxtur eru ekki góð tíðindi fyrir þá sem stýra fjármálaráðuneytinu og eru að reyna að ná jöfnuði á rekstri ríkissjóðs. Í nýjasta yfirliti um

kemur fram að innheimtar tekjur ríkissjóðs eru um 1,4 milljörðum undir tekjuáætlun fjárlaga á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Steingrímur J. talaði um „ævintýralegan vöxt“

Fyrst eftir hrun voru birtar spár sem gerðu ráð fyrir miklum samdrætti í efnahagslífinu. Samdrátturinn varð vissulega mikill, en þó ekki eins mikill og svartsýnustu menn reiknuðu með. Þegar kom fram á árið 2010 voru greiningaraðilar farnir að spá hagvexti á næstu árum. Árið 2011 spáði Seðlabankinn 3,1% hagvexti það ár og 3,2% hagvexti árið eftir.

Árið 2012 ritaði Steingrímur J. Sigfússon blaðagrein þar sem hann fjallaði um hagvöxt milli ársfjórðunga og sagði að „vöxturinn [væri] nær ævintýralegur“. Hann lét þess einnig getið þegar hann kynnti fjárlagafrumvarpið 2012 að reynsla væri oft á þann veg að menn vanmætu hagvöxtinn og tölurnar reyndust oft hærri þegar allar upplýsingar skiluðu sér í hús. Þetta gerðist vissulega oft fyrir hrun, en það sama hefur ekki verið uppi á teningnum síðustu 2-3 ár.

Það hefur því ekki reynst innistæða fyrir mikilli bjartsýni Steingríms J. Samkvæmt útreikningum Hagstofunnar var hagvöxtur árið 2011 2,9% og í fyrra var hann 1,6%. Fyrir ári síðan spáði Hagstofan að hagvöxtur í ár yrði 2,5%, en núna spáir Hagstofan að hann verði 1,9%.

Meiri hagvöxtur í Noregi og Bandaríkjunum en á Íslandi

Steingrímur sagði í eldhúsdagsumræðum í fyrravor að hagvöxtur á Íslandi væri meiri en í Bandaríkjunum, Japan og Noregi. Þetta hefur ekki reynst rétt. Nýjar tölur frá Hagstofu Evrópusambandsins sýna að hagvöxtur var meiri í Noregi og Bandaríkjunum í fyrra en á Íslandi. Því er spáð að það sama verði upp á teningnum í ár. Það er hins vegar rétt hjá honum að hagvöxtur í ESB er minni en á Íslandi. Frá því eru þó undantekningar. Þannig er talsvert meiri hagvöxtur í Eystrasaltslöndunum þremur en á Íslandi.

Það sem af er ári hafa selst 300 færri bílar …
Það sem af er ári hafa selst 300 færri bílar en á sama tíma í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson
Fjárfesting jókst aðeins um 4,4% á síðasta ári og því …
Fjárfesting jókst aðeins um 4,4% á síðasta ári og því er spáð að hún dragist saman um 2,3% í ár. mbl.is/Golli
Tölur sem Steingrímur J. Sigfússon hefur nefnt um hagvöxt á …
Tölur sem Steingrímur J. Sigfússon hefur nefnt um hagvöxt á síðustu tveimur árum hafa ekki gengið gengið eftir. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK