Nefnd, sem skipuð var af hálfu forsætisráðuneytisins í október 2012 hefur skilað skýrslu og tillögum um bætta neytendavernd á fjármálamarkaði. Meðal tillagna sem nefndin leggur til eru afnám stimpilgjalda af neytendalánum, breytingu á lántökugjöldum, takmörkun á uppgreiðslugjöldum og ítarlega rannsókn á bankamarkaði. Þetta kemur fram á vef forsætisráðuneytisins.
Nefndin telur afar mikilvægt að stimpilgjöld verði afnumin með öllu enda felst í þeim aðgangshindrun á bankamarkaði. Slík aðgerð dregur úr kostnaði neytenda og heimila við lántöku. Aðgerðin er auk þess talin auka hreyfanleika viðskiptavina milli banka og stuðli því að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði.
Segir í tillögunum að lántökukostnaður sé yfirleitt fast hlutfall af lánsfjárhæð (1%), en ekki sé ljóst hvort sú tala endurspegli raunkostnað við lántökuna. Því er lagt til bann við innheimtu lántökugjalda sem hlutfall af lánsfjárhæð. Einnig verði uppgreiðslugjöld takmörkuð svo þau miði sannanlega við endurfjármögnunaráhættu lánveitanda.
Samkeppni á bankamarkaði er ábótavant að mati nefndarinnar, einkum á húsnæðislánamarkaði. Lagt er til að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti beiti sér fyrir rannsókn á bankamarkaði og geri samanburð á gjaldtöku fjármálafyrirtækja á Norðurlöndunum og öðrum nágrannaríkjum.
Þá er lagt til að boðið verði upp á fleiri tegundir lána, til dæmis hrein vaxtalán og mögulega lán með verðtryggingarþaki þannig að lán hækki umfram umsamin mörk og áhætta af verðbólguskoti dreifist milli lántaka og lánveitanda.
Nefndin leggur til að nýtt embætti Umboðsmanns neytenda verði sett á fót og Neytendastofa og talsmaður neytenda verði lögð niður í núverandi mynd. Nýtt embætti taki við skyldum þeirra og bæti við sig verkefnum sem nú er sinnt af Fjármálaeftirlitinu og snúa að neytendamálum.