Slitastjórn gamla Landsbankans (LBI) telur að nýi Landsbankinn verði að fyrirframgreiða tíu milljarða í gjaldeyri inn á erlend skuldabréf bankans áður en hægt verður að greiða út sömu fjárhæð í arð til eigenda Landsbankans.
Það er jafnhá upphæð og áætlað er að bankinn greiði í vexti á þessu ári af 300 milljarða króna erlendum skuldum sínum. Í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að slitastjórnin vísar til samkomulags um endurreisn og fjármögnun Landsbankans í árslok 2009 þar sem er að finna ákvæði sem kveður skýrt á um að ef Landsbankinn greiðir arð til hluthafa þá skuli bankinn endurgreiða skuldabréfin hlutfallslega að fjárhæð sem er jöfn slíkri greiðslu. Erlend skuld Landsbankans gagnvart kröfuhöfum gamla Landsbankans er um 314 milljarðar króna.
Ágreiningur ríkir hins vegar milli gamla og nýja Landsbankans um hvort bankanum beri að fyrirframgreiða erlendar skuldir sínar samtíms og arður verður greiddur út til eigenda bankans.