Nýjustu tölur af vinnumarkaði gefa til kynna að heildareftirspurn eftir vinnuafli hafi minnkað á fyrsta fjórðungi ársins frá sama tíma í fyrra. Það kemur heim og saman við vísbendingar um þróun innlendrar eftirspurnar, og bendir til þess að tiltekið bakslag kunni að vera í efnahagsbatanum um þessar mundir, að mati Greiningar Íslandsbanka.
Samkvæmt nýbirtri vinnumarkaðskönnun Hagstofu mældist atvinnuleysi í marsmánuði 6,8% og hækkaði þar með um 2% á milli mánaða.
Slæmu fréttirnar úr tölum Hagstofunnar eru hins vegar þær að unnum vinnustundum í viku hverri fækkaði að jafnaði milli ára, segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Meðalfjöldi vinnustunda var 38,2 á viku á fyrsta ársfjórðungi 2013, en á sama tíma árið 2012 voru vinnustundirnar 40,0 á viku að jafnaði. Heildarvinnustundum í hagkerfinu fækkaði samkvæmt þessu um 1,8% á milli ára. Hefur heildareftirspurn eftir vinnuafli ekki dregist meira saman á þennan mælikvarða síðan á síðasta ársfjórðungi 2010.
„Þessi þróun er talsvert áhyggjuefni og rímar við nýlegar vísbendingar um þróun innlendrar eftirspurnar. Má þar nefna kortaveltutölur, þar sem samdráttur varð að raungildi á fyrsta fjórðungi ársins, tölur um smásöluveltu og tölur um innflutning neysluvara,“ segir í Morgunkorninu.