Kröfur í gjaldþrota bú 400 milljarðar

Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambandsins.
Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambandsins. Ásdís Ásgeirsdóttir

Á síðustu tveimur árum hafa kröfur í gjaldþrota bú numið um 400 milljörðum og upp í þær kröfur hefur aðeins náðst að innheimta um 7 milljarða. Þetta segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ í samtali við mbl.is, en á næstunni mun félagið kynna tillögur sínar um að koma í veg fyrir kennitöluflakk.

Stjórnvöld draga lappirnar

„Við erum að gera heildstæðar tillögur um nálgun á þessu stóra vandamáli. Þá er ég að tala um kennitöluflakk og afleiðingar þess þegar einstaklingar stofna og reka fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð og ganga í opinbera sjóði og innheimta opinber gjöld án þess að skila nokkurn tíman einhverju til baka. Svo skilja þeir ríkissjóð, viðskiptavini og auðvitað starfsmenn eftir í sárum,“ segir Halldór, en hann segir svarta atvinnustarfsemi oft fylgja þessu vandamáli og það sé í raun mismunandi hlið á sama pening.

Halldór gagnrýnir stjórnvöld nokkuð fyrir að draga lappirnar í þessu máli og segir að einkaaðilar hafi verið duglegri við að skoða og greina íslenskt atvinnulíf með að skrá og skoða tölur úr því. Nefnir hann þar meðal annars starfsemi Creditinfo, þaðan sem ASÍ hafi fengið mikið af tölulegum gögnum sínum í þessari vinnu.

Aftur á móti hafi verið erfitt að fá upplýsingar frá ríkisstofnunum og segir Halldór að ASÍ hafi í rúmlega eitt ár beðið eftir upplýsingum frá Tollstjóra um álögð opinber gjöld sem hafa tapast í gjaldþrotum, en ekkert fengið enn. „Við höfum skynjað að áhugi stjórnmálamanna og stjórnvalda hefur verið ákaflega lítill þegar kemur að þeim vanda sem kennitöluflakk og svört atvinnustarfsemi bera með sér,“ segir hann og bætir við: „Menn taka undir þetta þegar við bendum á það, en svo gerist ekki mikið.“

„Icesave hvað?“

Eins og fyrr segir hafa kröfur í gjaldþrota bú numið um 400 milljörðum á síðustu tveimur árum og að aðeins hefur náðst að innheimta um 7 milljarða upp í kröfurnar. Halldór nefnir í þessu samhengi að vaxtagjöld ríkissjóðs séu um 90 milljarðar á ári og að jafnvel megi spyrja sig „Icesave hvað?“

Fyrir utan tap kröfuhafa, birgja og launafólks segir Halldór að samfélagslegur kostnaður birtist líka í því að heiðarleg fyrirtæki eru oft að keppa á grundvelli sem er ekki byggður á neinu jafnræði.

Takmarka heimild til stofnsetningar fyrirtækja

Hann segir að skoða þurfi í auknum mæli að takmarka heimild til að stofnsetja félög með takmarkaða ábyrgð og að vera innheimtuaðili ríkissjóðs með skatta þegar kemur að einstaklingum sem hafa ítrekað verið í forsvari fyrir félög sem skilja eftir sig sviðna slóð og greiða ekki skatta og gjöld. „Forsvarsmenn þurfa að uppfylla einhver ákveðin skilyrði til að geta orðið innheimtumenn ríkissjóðs og stofnað félög sem bera takmarkaða ábyrgð,“ segir hann.

Þá telur hann að auka þurfi heimildir til að grípa inn í starfsemi fyrirtækja sem sýnilega séu að sigla í þrot eða ljóst hafi verið að eigi alltaf að eigi að fara í þrot. Nefnir hann að ákveðin vanskilaslóð verði oft til, meðal annars með því að ekki sé skilað virðisaukaskattsskýrslum og ársreikningum.

Persónulega ábyrgir og nafngreining

Einnig nefnir Halldór að breyta þurfi viðhorfi bæði neytenda og fyrirtækja, en Halldór telur að birgjar og fjármálastofnanir þurfi að stoppa þessa hegðun í auknum mæli. Nefnir hann jafnvel þann möguleika að aðilar sem hagi sér á þennan hátt verði gerðir persónulega ábyrgir eða nafngreindir.

„Að lokum snýst þetta um að fá breytt viðhorf í íslensku atvinnulífi. Manni finnst undarleg að einstaklingar sem séu þekktir af kennitöluflakki haldi sinni viðskiptavild gagnvart birgjum, neytendum og bönkum og að ríkissjóður skuli í rauninni halda áfram að ganga í opinbera sjóði landsmanna,“ segir Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK