Orkuveita Reykjavíkur hefur gert lánasamning í erlendum gjaldmiðli og áhættuvarnarsamning varðandi vexti við erlenda fjármálastofnun. Markmiðið er að styrkja lausafjárstöðu fyrirtækisins og draga úr áhættu, segir í fréttatilkynningu frá OR.
Vonast er til að ljúka samningum af svipuðum toga við íslenska banka, eins og kom fram í tilkynningu Orkuveitunnar frá 22. mars. Stjórn Orkuveitunnar hefur þegar samþykkt slíka samninga af sinni hálfu og er unnið að frágangi þeirra.
Þá hefur Orkuveitan í dag greitt stærstu afborgun í sögu fyrirtækisins. Hún nam um 67 milljónum evra, sem svara til um 10 milljarða króna. Lánveitandinn er Dexia Crédit Local. Eitt af helstu markmiðum Plansins – áætlunarinnar sem Orkuveitan vinnur eftir – var að mæta þessari afborgun. Upphaflega átti hún að nema um 15 milljörðum en á síðasta ári tókst að fresta greiðslu 5 milljarða. Engu að síður var greiðslan helsta ógnin við greiðsluhæfi Orkuveitunnar. Hún er nú að baki, segir í tilkynningunni.
Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir í tilkynningunni að í dag séu þáttaskil hjá OR í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi hafi Orkuveitan nú greitt hæstu afborgun af lánum sem fyrirtækið stóð frammi fyrir. „Árangur Plansins gerði okkur þetta kleift. Í öðru lagi nýtur Orkuveitan nú trausts á alþjóðlegum lánamarkaði á ný.
Samningarnir um lán og áhættuvarnir sýna að við höfum nú aðgang að erlendum mörkuðum og getum með því styrkt lausafjárstöðu Orkuveitunnar verulega og dregið úr áhættu í rekstrinum.
Orkuveitan – eigendur fyrirtækisins, stjórnendur allir og starfsfólk – hafa sýnt mikla einurð við að fylgja Planinu eftir, sem við lögðum upp með vorið 2011. Þessir samningar eru ávöxtur þeirrar miklu vinnu. Þeir eru mikilvægt skref í þá átt að Orkuveitan verði á ný fjárhagslega traust fyrirtæk, sem rekið er af hagkvæmni og að viðskiptavinir njóti þess,“ segir Bjarni.