Gestir á EVE Fanfest hátíðinni eyddu yfir 400 milljónum hér á landi í ýmiskonar þjónustu og tómstundir. Í heildina komu tæplega 2000 gestir hingað til lands til að vera viðstaddir hátíðina, sem haldin var í Hörpunni. Þar af voru 83 erlendir blaðamenn og gera má ráð fyrir að heimsóknin veki því enn meiri athygli þegar öll umfjöllun er skoðuð.
Í tilkynningu frá CCP, sem hannaði EVE leikinn, má varlega áætla að útgjöld hópsins sem hingað kom til lands vegna hátíðarinnar sé um 400 milljónir. Það er þó tekið fram að þetta sé varlega áætlað og bendir fyrirtækið á að inn í þessar tölur sé ekki tekið með kostnaður gesta við ferðir út á land, í Bláa lónið og gullna hringinn.
Fyrir utan þá sem hingað komu til lands, þá fylgdust um 280 þúsund manns með hátíðinni á netinu, en meðal annars voru ýmiskonar fyrirlestrar, kynningar á margvíslegum nýjungum í þróun leikja CCP, upplýst að von væri á þáttum sem Baltasar Kormákur ætlar að framleiða tengdum EVE heiminum og svo stóra partýið í Hörpunni.