Talsvert frávik frá tekjuáætlun ríkissjóðs

Innheimtar tekjur ríkissjóðs eru talsvert minni en reiknað var með í tekjuáætlun fjárlaga. Tekjurnar námu 126,9 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins sem er 5,2 milljörðum minna en reiknað var með.

Hafa ber í huga að frávik frá áætlun geta verið umtalsverð á fyrstu mánuðum ársins og það getur jafnast þegar líður á árið. Frávikið er hins vegar meira eftir þrjá mánuði en í tveggja mánaða uppgjörinu. Ástæðan fyrir minni tekjum er ekki síst að einkaneysla er minni en reiknað var með.

Stærstu tekjustofnar ríkissjóðs eru tekjuskattar og veltuskattar sem lagðir eru á vörur og þjónustu. Tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga er um 800 milljónum meiri en reiknað var með í tekjuáætlun ríkissjóðs. Tekjuskattur fyrirtækja skilaði 1.300 milljónum meira en reiknað var með.

Tryggingagjaldið skilaði hins vegar 700 milljónum minna á fyrstu þremur mánuðum ársins en reiknað var með í tekjuáætlun.

Óraunhæf áætlun varðandi virðisaukaskatt

Tekjur af sköttum á vöru og þjónustu voru 5,4 milljörðum minni en reiknað var með. Þetta mikla frávik skýrist aðallega af virðisaukaskatti sem er 4,6 milljörðum undir áætlun. „Ljóst er að áætlun um tekjur af virðisaukaskatti er of há en engu að síður er reiknað með að verulega dragi úr þessu fráviki þegar líður á árið,“ segir í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Aðrir óbeinir skattar eru í grófum dráttum í takt við áætlanir. Það á við um bensíngjöld og olíugjöld. Áfengisgjaldið er einnig að skila svipuðu og reiknað var með. Tóbaksgjaldið er hins vegar að skila um 200 milljónum minna en reiknað var með.

Aðrar tekjur námu alls 1.000 yfir tekjuáætlun. Þar munar mest um tekjur af veiðigjöldum sem eru 900 milljónum meiri en reiknað var með.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK