Ríkissjóður og Seðlabankinn gætu þurft að leita á náðir erlendra lánardrottna til þess að fjármagna afborganir íslenskra fyrirtækja af erlendum lánum sínum og til að greiða fyrir kosningaloforð. Þetta kemur fram í umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar. Þar er meðal annars haft eftir Sigríði Benediktsdóttur, yfirmanni fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, að skuldir Íslands fram til ársins 2018 séu of háar.
Segir Bloomberg frá því að á næstu fimm árum sé gert ráð fyrir því að aðilar, aðrir en ríkið og Seðlabankinn, þurfi að geriða 678 milljarða af lánum sínum. Þar spilar Landsbankinn stærsta hlutverkið með um 299 milljarða greiðslur, en einnig þurfi Orkuveitan að greiða 102 og Landsvirkjun og Rarik 139 milljarða.
Greint er frá því að loforð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins, sem blaðið segir líklegustu ríkisstjórnina, hafi verið hagvöxtur, skuldaniðurfelling og lægri skattar. Þá er haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að eina lausnin til að vinna á gjaldeyrishallanum sé að sækja á í útflutningsgreinunum. Það verði þó erfitt nema hér ríki stöðugleiki.