Fyrirtækið Meniga ehf. hlaut í morgun Vaxtarsprotann 2013 sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis á síðasta ári. Fyrirtækið nær tífaldaði sölutekjur sínar milli áranna 2011 og 2012. Meniga var stofnað árið 2009 og starfa nú 45 manns hjá fyrirtækinu. Meirihluti starfsmanna er á Íslandi þar sem rannsóknir og þróun fara fram en félagið rekur sölu- og markaðsstarfsemi frá Stokkhólmi þar sem 7 starfa.
Vaxtarsprotinn er viðurkenning sem veitt er á vegum Samtaka iðnaðarins, Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Háskólans í Reykjavík. Í tilkynningu kemur fram að tilgangur verðlaunanna sé að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.
Alls hlutu fjögur sprotafyrirtæki viðurkenningu fyrir öflugan vöxt milli áranna 2011 og 2012, en viðurkenningunum var skipt í tvo flokka. Í 2. deild, flokki sprotafyrirtækja með veltu á bilinu 10-100 milljónir hlutu fyrirtækin Meniga og Controlant viðurkenningu, en í 1. deild, flokki sprotafyrirtækja með ársveltu á bilinu 100-1000 milljónir fengu fyrirtækin Nox Medical og Iceconsult viðurkenningu.
Meniga ehf. var stofnað árið 2009 af Georg Lúðvíkssyni framkvæmdastjóra, Ásgeiri Ásgeirssyni og Viggó Ásgeirssyni. Auk stofnenda er Frumtak stór eigandi í Meniga. Fyrirtækið sérhæfir sig í lausnum fyrir næstu kynslóð netbanka þar sem lögð er áhersla á notendavænleika, góða hönnun og að gera fólki auðvelt að stjórna heimilisfjármálunum.
Þetta er í sjöunda sinn sem Vaxtarsprotinn er afhentur en hann hefur verið veittur árlega frá árinu 2007. Áður hafa hlotið Vaxtarsprotann fyrirtækin Maroka 2007, Mentor 2008 og 2009, Nox Medical 2010, Handpoint 2011 og Valka 2012.