Raungengi íslensku krónunnar hækkaði um 5,3% í apríl frá fyrri mánuði á mælikvarða hlutfallslegs verðlags. Er þetta þriðji mánuðurinn í röð sem raungengi krónunnar þróast í þessa átt og stendur það nú í 81 stigi, sem er hæsta gildi þess frá því í september árið 2008.
Þessa miklu hækkun á raungenginu nú má nánast að öllu leyti rekja til hækkunar á nafngengi krónunnar um 5,2% á milli mars og apríl m.v. vísitölu meðalgengis, segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.
Líkt og búast mátti við þá voru verðlagsáhrifin lítil, enda hækkaði vísitala neysluverðs um 0,2% á milli mars og apríl sem svipar til þeirrar verðlagsbreytingar sem er að jafnaði í okkar helstu viðskiptalöndum.
„Hækkandi raungengi getur verið nokkuð tvíbent sverð fyrir íslenskt hagkerfi um þessar mundir. Þörf er á verulegum afgangi af vöru- og þjónustujöfnuði til að afla gjaldeyris til greiðslu vaxta og afborgana af erlendum skuldum.
Hærra raungengi rýrir samkeppnisstöðu útflutningsgreina og eykur innflutta neyslu, hvort sem er í formi utanlandsferða eða meiri kaupa á innfluttum varningi. Ef raungengi hækkar verulega til viðbótar gætu þessi áhrif farið að segja til sín í minni afgangi af utanríkisviðskiptum, sem svo aftur leiðir á endanum til gjaldeyrisútflæðis og veikari krónu.
Sígandi lukka er því best í þessum efnum, frekar en raungengið styrkist hratt á meðan enn eru gjaldeyrishöft og ekki hefur verið rekið smiðshöggið á uppgjör þrotabúa gömlu bankanna, endurfjármögnun skuldabréfa Landsbankans og fleiri mál sem talin eru forsenda þess að hægt sé að aflétta höftunum,““ segir ennfremur í Morgunkorni.