Þátttakendur í hlutafjárútboði Tryggingamiðstöðvarinnar hafa á rúmlega einum og hálfum klukkutíma hagnast um rúmlega 1,5 milljarð miðað við hækkanir sem hafa verið á bréfum félagsins það sem af er morgni.
Bréf félagsins voru seld á genginu 20,1 í útboðinu, en eftir um 800 milljóna viðskipti í Kauphöllinni í morgun er gengið komið upp í 26,8. Hæst fór það í 27,3 kringum 10 leitið. Hækkunin nemur um 34% og miðað við markaðsgengið þessa stundina er hagnaður þeirra sem keyptu í félaginu rúmlega 1,5 milljarður.
Lífeyrissjóður verslunarmanna var stærsti hluthafi í félaginu eftir hlutafjárútboðið með um 9,9% eignarhlut. Miðað við hækkunina í dag hefur verðmæti þess hlutar aukist um rúmlega hálfan milljarð.