Má leigja út íbúðir án gistileyfa?

Mikið er um leigu á íbúðum og herbergjum til ferðamanna …
Mikið er um leigu á íbúðum og herbergjum til ferðamanna í Reykjavík. Slík leiga getur verið gistileyfisskyld og að greiða þurfi virðisaukaskatt af henni. Ómar Óskarsson

Á undanförnu hefur mikið farið fyrir umræðu um aukinn fjölda íbúða í höfuðborginni sem leigðar eru út til ferðamanna, sumar yfir sumartímann, aðrar yfir allt árið. Samtök ferðaþjónustunnar hafa gagnrýnt þessa starfsemi og sagt hana ólöglega þar sem húseigendur hafi ekki tilskilin leyfi og greiði ekki skatta af starfsemi sinni. 

Meðal annars hefur verið bent á að nokkur hundruð íbúðir í Reykjavík séu auglýstar á leiguvef á netinu þar sem fólki gefst kostur á að leigja út íbúðir til ferðamanna. Samkvæmt Samtökum ferðaþjónustunnar er aðeins lítill hluti þessara íbúða með gistileyfi.

Í gær fjallaði mbl.is um að ríkisskattstjóri hyggst herða eftirlit með útleigu á íbúðum sem gætu flokkast undir gistiþjónustu og fylgja því eftir að greidd væru rétt gjöld og skattar af þeirri þjónustu.

Telja sig leigja íbúðir löglega

Mbl.is hefur rætt við einstaklinga sem leigja út íbúðir yfir sumartímann og telja sig gera það löglega svo lengi sem greiddur sé fjármagnstekjuskattur af leigutekjunum. Húsaleiga er undanskilin virðisaukaskatti og ekki er þörf á gistileyfi fyrir aðila sem leigja íbúðir sínar út, eins og fram kemur í húsaleigulögum. Mbl.is kannaði málið nánar og fékk svör við því hvenær húsaleiga verði að gistiþjónustu og hvort hægt sé að stunda útleigu á íbúðum án þess að hafa til þess gistileyfi.

Regluleg og skipulögð atvinnustarfsemi ber virðisaukaskatt

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir í samtali við mbl.is að meginreglan sé sú að allar tekjur séu skattskyldar. Það sé þó undantekning í virðisaukaskattslögum og að heimild sé fyrir því að einstaklingur hafi tekjur upp að einni milljón króna án þess að greiddur sé virðisaukaskattur. Yfir þessari upphæð þurfi þó að greiða skattinn og við bætist gistináttagjald. Hann tekur þó fram að þetta eigi ekki við um reglulega eða skipulagða atvinnustarfsemi. 

„Þetta er skýrt mark, en þrátt fyrir það getur þjónustan verið skattskyld í atvinnurekstri þó hún nái ekki milljón. Ef við tökum sem dæmi einstaklinga sem leigja út herbergi til túrista ár eftir ár og eru með reglubundna starfsemi. Þó þetta nái ekki milljón þá gæti verið að menn þurfa að greiða atvinnurekstrartekjuskatt og þá fellur þetta ekki undir að vera með fjármagnstekjur,“ segir Skúli. 

Það er því ekki bara spurning um heildarupphæð leigunnar sem skiptir máli samkvæmt Skúla, fyrirkomulag leigunnar getur þar skipt miklu máli. Hann segir að leiga húsnæðis í eitt eða tvö skipti í stuttan tíma sé allt annað mál og falli undir milljónaregluna og beri því ekki virðisaukaskatt.

Lengd útleigu hefur áhrif á þörf á gistileyfi

En það er ekki bara ríkisskattstjóri sem hefur með það að segja að ákveða hvað sé gistiþjónusta og hvað sé húsaleiga. Í húsaleigulögum kemur fram að ef leigt sé til viku eða skemmri tíma, þá flokkist það sem gistiþjónusta og þá þurfi leyfi frá lögreglustjóra. Þegar mbl.is sóttist eftir svörum frá Lögreglustjóranum í Reykjavík fengust þau svör að vikutími í útleigu væri viðmið embættisins. Aftur á móti gæti lengri leiga einnig flokkast sem gistiþjónusta, en það væri aftur á móti meira álitaefni og færi eftir atvikum.

Það stendur þá eftir að ef eigendur eigna ætla að leigja íbúðir sínar út, þá þurfa þeir gistileyfi sé leigan styttri en ein vika. Með gistileyfi er um atvinnurekstur að ræða og því þarf að greiða gistináttagjald og virðisaukaskatt. Ef hún er lengri en vika er þó hægt að sleppa við slíkt með því að gera leigusamning.

Ef leigan flokkast hins vegar sem regluleg eða skipulögð atvinnustarfsemi, þá þarf að greiða virðisaukaskatt, en álitaefni getur verið hvort sækja þurfi um gistileyfi. Nái tekjur vegna leigunnar á einu ári yfir einni milljón þarf einnig að greiða virðisaukaskatt og það fer eftir eðli og umfangi leigunnar hvort hún sé atvinnustarfsemi eður ei. 

Frétt mbl.is: Ólögleg gisting undir smásjá RSK

Frétt mbl.is: Segir fjórðung herbergja ólöglegan

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir að regluleg og skipulögð útleiga …
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir að regluleg og skipulögð útleiga flokkist sem atvinnustarfsemi. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka