Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Verða daglánavextir bankans því áfram 7,00%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga (stýrivextir) 6,00% hámarksvextir á 28 daga innistæðubréfum
5,75% og innlánsvextir 5,00%. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur haldið vöxtum bankans óbreyttum frá því að þeir voru hækkaðir um 0,25 prósentur í nóvember í fyrra.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar kemur fram að í samræmi við hægari alþjóðlegan hagvöxt hefur dregið úr hagvexti hér á landi og viðskiptakjör hafa rýrnað. Horfur eru á að innlendur hagvöxtur verði í ár og yfir spátímabilið heldur minni en Seðlabankinn spáði í febrúar, en eigi að síður nálægt meðalhagvexti undanfarinna þriggja áratuga.
Spá nú 1,8% hagvexti í stað 2,1%
Gert er ráð fyrir minni hagvexti í ár en spáð var í febrúar eða 1,8% í stað 2,1%. Endurspeglar það fyrst og fremst talsvert lakari horfur um þróun atvinnuvega - fjárfestingar, byggt á nýjum upplýsingum um fjárfestingaráform innlendra fyrirtækja fyrir árið í ár.
Þótt hag -vaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár séu einnig taldar lakari en í febrúar, er áfram gert ráð fyrir ágætum hagvexti eða 3-3½% á ári. Gangi spáin eftir verður meðalhagvöxtur í ár og næstu tvö ár 2,8%, sem er svipað meðalhagvexti síðustu þrjátíu ára og með því mesta meðal þróaðra ríkja. Innlendur efnahagsbati heldur því áfram, þótt hann hafi verið hægari en áður hafði verið vonast eftir, segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.
Batinn á vinnumarkaði heldur áfram, með fjölgun starfandi og minna atvinnuleysi. Verðbólga hefur hjaðnað í takt við spár bankans og mælist hún nú 3,3%. Mælikvarðar á undirliggjandi verðbólgu og verðbólguvæntingar eru þó hærri. Eigi að síður er því spáð að verðbólgumarkmiðið náist heldur fyrr en áður var gert ráð fyrir. Vegast þar á minni hagvöxtur og hærra gengi krónunnar annars vegar og meiri hækkun launa og minni framleiðnivöxtur hins vegar, segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.
„Verðbólga er nær markmiði en hún hefur verið síðan hún jókst í framhaldi af kjarasamningum vorið 2011. Óvissa um gengisþróun á komandi misserum kann hins vegar að stuðla að þrálátari verðbólguvæntingum en ella og hægja á hjöðnun verðbólgu í kjölfar hækkunar á gengi krónunnar á þessu ári.
Að undanförnu hefur dregið úr gjaldeyrismisvægi í efnahagsreikningum fjármálastofnana og gengi krónunnar verið nálægt því sem að óbreyttu má ætla að nægi til þess að ná verðbólgumarkmiðinu á næstu misserum. Peningastefnunefndin telur að þessar aðstæður skapi forsendur fyrir aukinni virkni Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði á næstunni með það að markmiði að draga úr gengissveiflum miðað við stöðu krónunnar að undanförnu. Er það í samræmi við fyrri yfirlýsingar nefndarinnar um mikilvægi þess að nota þau stjórntæki sem hún hefur yfir að ráða til þess að stuðla að verðstöðugleika,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.
Reynt að draga úr skuldsettum gjaldeyrisforða
Eftir því sem aðstæður leyfa mun bankinn leitast við að auka óskuldsettan gjaldeyrisforða. Aukinn óskuldsettur forði er hins vegar langtímamarkmið og framkvæmd stefnunnar er háð bæði stöðu og hreyfingum krónunnar, sem að nokkru leyti ráðast af mis-fyrirsjáanlegum fjármagnshreyfingum.
Gjaldeyriskaup Seðlabankans munu því m.a. taka mið af sterkri tilhneigingu til lækkunar gjaldeyrisskulda annarra aðila, einkum á meðan verðbólga er enn yfir markmiði bankans. Gjaldeyrir sem keyptur yrði til þess að mæta tímabundnu og í einhverjum tilvikum árstíðarbundnu innflæði mun í samræmi við ofangreinda stefnu verða notaður til þess að styðja við krónuna þegar það snýst í gjaldeyrisútstreymi.
Nauðsynlegt að endurmeta stefnu áður en teknar eru ákvarðanir
„Peningastefnunefndin væntir þess að ofangreind stefna muni stuðla að því að innlent verðlag aðlagist sterkari krónu fyrr en ella og að verðbólguvæntingar lækki. Verðbólgumarkmiðið gæti þá hugsanlega náðst fyrr en nú er spáð, en það er þó háð þróun annarra þátta.
Verði verulegar breytingar á ytri skilyrðum þjóðarbúsins eða ef aðrir þættir efnahagsstefnunnar grafa undan efnahagslegum stöðugleika verður stefnan um viðskipti á gjaldeyrismarkaði tekin til endurskoðunar. Sérstaklega verður horft til stefnunnar í ríkisfjármálum og hvort kjarasamningar og launaþróun séu í samræmi við verðbólgumarkmiðið. Áður en afgerandi skref eru stigin varðandi losun hafta á almennt fjármagnsútstreymi verður nauðsynlegt að endurmeta þessa stefnu og hið sama á við ef teknar yrðu ákvarðanir er varða umgjörð peningastefnunnar.
Þótt heldur hafi hægt á efnahagsbatanum um sinn heldur slakinn í þjóðarbúskapnum áfram að minnka. Laust taumhald peningastefnunnar hefur á undanförnum misserum stutt við efnahagsbatann. Áfram gildir að eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum er nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig.
Að hve miklu leyti aðlögunin á sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fer eftir framvindu verðbólgunnar, sem ræðst að miklu leyti af þróun launa og gengishreyfingum krónunnar. Auk þess þarf peningastefnan hverju sinni að taka mið af stefnunni í opinberum fjármálum og öðrum þáttum sem hafa áhrif á eftirspurn,“ segir ennfremur í yfirlýsingu peningastefnunefndar.