Íslendingur, búsettur erlendis, tók þátt í hlutafjárútboði TM á dögunum. Hann átti krónur hér á landi og greiddi með þeim fyrir bréfin. Ekki var um háar fjárhæðir að ræða.
Fyrsta daginn á markaði hækkuðu bréfin um 33% frá hlutafjárútboði. Fjárfestirinn ætlaði að leysa út gengishagnað en fékk þau skilaboð frá Landsbankanum, umsjónaraðila útboðsins, að hann fengi bréfin ekki afhent, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í viðskiptablaði Morgunblaðsins sem út kom í morgun.
Fjárfestirinn væri með skráð lögheimili erlendis, og væri þar af leiðandi erlendur aðili í skilningi laga um gjaldeyrismál. Hann gæti því fengið bréfin endurgreidd eða gæti framvísað staðfestingu frá Seðlabankanum um að um nýfjárfestingu væri að ræða. Gæti hann það ekki, mætti senda erlendan gjaldeyri til Íslands og kaupa bréfin með honum, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Hópur fólks var í sömu stöðu, samkvæmt upplýsingum Landsbankans, en bankinn vill ekki gefa upp hve hópurinn er fjölmennur eða um hve háar fjárhæðir var að tefla.