Sala áfengis var um 53% meiri fyrir síðustu helgi en fyrir almennar söluhelgar. Þetta kemur fram í tölum frá ÁTVR. Sala á bjór var um 50% meiri en almennt gerist, 65% meiri sala var á hvítvíni og 33% meiri sala á sterku víni. Ávaxtavínin eru þó hástökkvarinn og var sala þeirra um 112% meiri en fyrir venjulegar söluhelgar.
Þegar sölutölur fyrir þessa helgi eru bornar saman við Eurovision-helgina í fyrra, sem einnig var hvítasunnuhelgi, þá sést að sala á áfengi hefur aukist um 1,9%. Í ár seldust 341 þúsund lítrar en í fyrra fóru um 335 þúsund lítrar úr búðum ÁTVR. Sala á hvítvíni og rauðvíni dróst aðeins saman milli ára, en ávaxtavín og blandaðir drykkir bættu mest við sig.
Borin var saman sala frá fimmtudegi til laugardags í ár, 16. til 18. maí, en frá 24. til 26. maí í fyrra. Þá var sala fyrir þessa helgi einnig borin saman við venjulega söluhelgi, en vegna frídaga á síðustu vikum var af handahófi valin þriðja vikan í apríl til samanburðar.