Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs muni lækka um 0,1% í maí frá mánuðinum á undan. Gangi það eftir helst 12 mánaða verðbólga óbreytt í 3,3%, sem er minnsta verðbólga í tvö ár. Gengi krónunnar er meðal helstu áhrifaliða í mælingunni í þetta skiptið. Gerir greiningardeildin ráð fyrir því að verðbólgan verði í kringum 3% næstu tvö árin.
Þrátt fyrir nokkra veikingu á fyrri helmingi maímánaðar er gengi krónu enn um það bil 8% sterkara en raunin var í febrúarbyrjun. Útlit er fyrir að gengið verði á svipuðu róli næstu mánuði, enda hefur Seðlabankinn lýst þeirri ætlan sinni að stýra gengi krónu á næstunni með beinni hætti en áður með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Segir greiningardeildin að styrkingin hafi þegar komið fram að nokkru leyti í lækkandi verði innfluttra vara og eldsneytis, en að áfram geti styrkingaráhrif komið fram í vöruverði í maí og júní.
Stærsti einstaki áhrifaliðurinn í mælingu vísitölunnar nú verður ferða- og flutningaliðurinn að mati greiningarinnar og gerum hún ráð fyrir að hann vegi til 0,18% lækkunar í maí. Eldsneyti hefur lækkað talsvert í verði frá aprílmælingunni, og þá sér greiningin vísbendingar um að verð annarra farartækja hafi einnig lækkað undanfarið.