Alþjóðlega lyfjafyrirtækið Alvogen heldur áfram að byggja upp starfsemi sína á Íslandi. 30 starfsmenn hafa verið ráðnir á íslensku skrifstofu félagsins frá því starfsemi þess hófst hér á landi árið 2010. Hjá Alvogen samstæðunni starfa nú um 1.800 starfsmenn í 30 löndum.
Starfsmenn Alvogen á Íslandi hafa m.a. það hlutverk að leiða stefnumótun og verkefni sem snúa að samþættingu þróunar- og framleiðslueininga, skoðun fjárfestingatækifæra, fjármálum, og vörumerkja- og markaðsmálum fyrir samstæðuna. Róbert Wessman er forstjóri Alvogen, segir í fréttatilkynningu.
Alan Searles hefur verið ráðinn sem Global Validation Manager og mun starfa innan gæðasviðs Alvogen. Hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri löggildingar (validations) hjá Delta, forvera Actavis á Íslandi. Alan er með B.Sc. gráðu í hagnýtri eðlisfræði frá Cork Institute of Technology, Írlandi og B.A. gráðu í ensku frá Háskóla Íslands.
Jónína S. Tryggvadóttir hefur verið ráðin sem Service Representative. Hún mun sinna ýmsum verkefnum sem snúa að daglegri starfsemi íslensku skrifstofunnar. Jónína lauk nýverið meistaranámi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands. Hún hefur mikla reynslu tengda fyrirtækjum í kaffi iðnaðinum hér heima og erlendis og hefur m.a. séð um þjálfun starfsfólks, skipulagningu ýmissa viðburða og þjónustu á því sviði.
Unnur Ágústsdóttir hefur verið ráðin sem Director of Project Management Biosimilars. Hún starfaði áður hjá Arion banka og Íslandsbanka, m.a. sem forstöðumaður í Eignastýringu, á Viðskiptabankasviði og í Áhættustýringu. Undanfarin ár var megináhersla hennar á innleiðingu umbótaferla og ferlagreiningum. Unnur er viðskiptamenntuð með MPM gráðu í verkefnastjórnun, ACC réttindi markþálfa og próf í verðbréfamiðlun. Unnur leiðir ýmis sérverkefni sem tengjast þróun og framleiðslu líftæknilyfja hjá Alvogen.
Sigurlína Þóra Héðinsdóttir hefur verið ráðin sem Biosimilar Development Manager. Sigurlína starfaði áður sem vísindamaður á þróunardeild fyrir formúleringar líftæknilyfja hjá lyfjafyrirtækinu Sandoz og sem sérfræðingur í framleiðslueftirlitsdeild hjá Actavis á Íslandi. Sigurlína er lyfjafræðingur og útskrifaðist með M.Sc/Cand Pharm gráðu frá Háskóla Íslands árið 2004. Hjá Alvogen hefur Sigurlína umsjón með verkefnum er snúa að þróun og framleiðslu líftæknilyfja.