Endurnýta og selja gamalt byggingarefni

Helga Einarsdóttir ásamt manni sínum Keith Daly.
Helga Einarsdóttir ásamt manni sínum Keith Daly.

Hugmyndin er að spara förgunarkostnað, endurnýta byggingarefni í stað þess að endurvinna það og stuðla að möguleika á að halda samræmi í húsnæði sem verið er að endurgera. Þetta segir Helga Einarsdóttir, en hún, ásamt manni sínum Keith Daly, hefur stofnað fyrirtækið Aftur aftur sem selur notaða byggingahluta.

„Verkefnið er að við sérhæfum okkur í að safna og fjarlægja byggingarefni og byggingarhluta. Hugmyndin er að leggja áherslu á að endurnýta í stað þess að endurvinna hluti þar sem endurvinnsla er frekar orkufrek,“ segir Helga í samtali við mbl.is 

„Þá viljum við innleiða eitthvað nýtt, en í nágrannalöndum okkar eins og Íralandi og Englandi eru víða fyrirtæki sem sérhæfa sig í að vera með eldri byggingahluta á lager,“ segir hún, en ekkert slíkt hefur verið gert hér á Íslandi.

Gluggar, hurðir, gólfefni, þakplötur og ofnar

Meðal efnis sem Aftur aftur sérhæfir sig í að safna og selja áfram eru gluggar, hurðir, gólfefni, þakplötur, ofnar og jafnvel burðarveggir eða bitar. „Við erum að reyna að sporna gegn því að þegar hús eru rifin eða gerð upp sé öllu fleygt á hauganna,“ segir Helga.

Hún segir verkefnið fyrst hafa verið styrkt af Húsafriðunarnefnd, en það sé nú að komast á fullt skrið. Helga vinnur þó áfram sem kennari, en Keith hefur að mestu helgað sig þessu verkefni.  Þá segir hún smiði hafa sýnt þessu aukinn áhuga og þeir hafi margir haft samband áður en heilu gámunum sé hent á haugana til að hægt sé að sækja nýtanlega hluti.

Getur sparað fólki pening

„Stundum hefur fólk samband sem hefur frétt af okkur og segist vera með fullan gám af byggingarefni sem við megum taka,“ segir Helga, en þetta getur sparað fólki mikinn pening sem annars færi í förgun, en Helga og Keith sækja efnið heim til fólks.

Vinnuaðstaða Aftur aftur er í Reykjanesbæ, en Helga segir að það sé ekki enn komin aðstaða til að hafa opið fyrir viðskiptavini til að skoða. Hlutirnir séu því settir upp á vefsíðuna eða á facebook-síðu og þar hafi fólk samband við þau. Mögulegt sé þá að mæla sér mót og sýna vöruna, hvort sem þau komi með hana til Reykjavíkur, eða kíkt sé við í Reykjanesbæ.

Gamalt komið í tísku

Hún segir þetta vera mjög sniðugt fyrir fólk sem er að gera upp gamalt húsnæði og vilji fá gegnheilan við, sem almennt sé mjög dýrt að smíða, á viðráðanlegu verði. Þá sé þetta einnig sniðugt fyrir þá sem vilji setja eldri efnivið í nýrri íbúðir og segir hún telja að hið gamla sé að komast aftur í tísku í þessum efnum.

Mikil vakning hefur verið á Íslandi á síðustu árum eftir hrun að sögn Helgu og nú hugar fólk frekar að því að vera með meira samræmi í húsnæðinu þegar endurnýjað er og ber virðingu fyrir því að viðhalda stíl íbúðarinnar. Því geti þjónusta sem þessi komið sér mjög vel og auðveldað viðhald eldri húsa mikið.

Meðal þess sem Aftur aftur safnar og selur eru hurðir.
Meðal þess sem Aftur aftur safnar og selur eru hurðir.
Gamlir gluggar, ofnar, þakplötur og timbur er einnig til sölu …
Gamlir gluggar, ofnar, þakplötur og timbur er einnig til sölu hjá Aftur aftur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka