„Nú er ég kominn í nýtt starf og þarf að reyna að halda heila ræðu án þess að segja nokkurn skapaðan hlut sem vekur athygli eða deilur.“ Þannig byrjaði ræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra á fundi um snjóhengjuvandann í morgun. Hann bætti þó fljótlega við að hann efaðist um að geta gert það, enda væri ómögulegt að ræða um þetta mál án þess að segja eitthvað, þar sem málið væri það stærsta á komandi tímum hjá stjórnvöldum.
Hann ítrekaði þó að það væri ekki hlutverk stjórnvalda að semja við kröfuhafa föllnu bankanna, en sagði það áhugaverða hugmynd hjá Róberti Wessman að skapa þannig umgjörð að það ýtti kröfuhöfum til samninga.
Staðan nú er þó viðkvæm og ekki má mikið út af bera að sögn Sigmundar, en hann sagði ljóst að íslenskt samfélag gæti ekki sætt sig við að vera í viðvarandi hættu í langan tíma og yrði að nýta sér fullveldisréttinn ef svo bæri undir. Stóra spurningin væri hversu langt yrði gengið í þeim efnum og svaraði hann því svo: „við munum ganga eins langt og þarf.“
Þá nefndi Sigmundur að ójafnræði væri í því að föllnu bankarnir greiddu ekki skatta, meðan aðrar fjármálastofnanir gerðu slíkt og í mörgum tilfellum væru þeir skattlagðir meira en önnur fyrirtæki. Sagði hann mögulegt að skoða að skattleggja fjármálafyrirtæki eftir því hvort þau væru í rekstri eða ekki, en slíkt gæti skilað ríkissjóði stórum upphæðum.
Sigmundur sló nokkrum sinnum á létta strengi, meðal annars þegar hann sagði að það væri gaman að þessi umræða væri komin upp á yfirborðið, því hann hefði áður þurft að vera á leynifundum með andspyrnuhópum til að ræða þetta mál.
„Það eru nokkrir hér inni sem ég hef hitt á leynifundum á liðnum árum. Í kjallaraíbúðum, tómu atvinnuhúsnæði og veitingastöðum til að ræða um raunverulega stöðu ríkisfjármála og raunverulegan gjaldeyrisjöfnuð,“ sagði Sigmundur og bætti við að þar hefðu ákveðnir andspyrnuhópar fundað þannig að lítið bæri á, en nú væri þetta sem betur fer komið upp á yfirborðið þannig að hægt væri að móta stefnuna og takast á við hlutina.