„Eitthvað annað“ mun arðbærara en álið

Álverið í Straumsvík. Dr. Guðbjört Gylfadóttir segir „eitthvað annað“ vera …
Álverið í Straumsvík. Dr. Guðbjört Gylfadóttir segir „eitthvað annað“ vera 2,6 sinnum arðbærara en virkjanir og álversuppbygging þegar mælt sé í vergri þjóðarframleiðslu. mbl.is/Sigurður Bogi

„Eitthvað annað“ er um 2,6 sinnum arðbærara en virkjanir og álversuppbygging þegar mælt er í vergri þjóðarframleiðslu. Þetta segir Guðbjört Gylfadóttir, doktor í iðnaðar- og kerfisverkfræði, í opnu bréfi sem hún sendi Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en málefni umhverfisráðuneytisins heyra undir hans embætti. Guðbjört bendir á að í skýrslu sem Bank of America og Merrill Lynch hafi gert fyrir alþjóðlega ráðstefnu málma- og námuvinnslu, komi fram að núverandi staða á álmarkaði sé ekki ýkja björt.

Offramboð á áli og hækkandi framleiðslukostnaður

Álframleiðendur þurfa að minnka framleiðslu á áli til að koma út á sléttu, en óhagstæð skilyrði á markaði gera það að verkum að framleiðslukostnaður hefur hækkað mikið. Meðal þess sem bent er á í skýrslunni er að hækkandi leiguverð geymsluhúsnæðis hafi þau áhrif að álfyrirtækin vilji nú losna við miklar birgðir sem safnast hafa upp. Fari svo að losað verði um mikið magn lækkar verðið á áli enn frekar.

Þá er nú þegar offramboð og segir Guðbjört að álrisinn Alcoa hafi gefið það út að hann ætli að minnka framleiðsluna hjá sér úr um 30 milljónum tonna niður í 27 til 28 milljón tonn á ári. Rafmagn og aðrir framleiðsluþættir hafa einnig hækkað umtalsvert og önnur efni, eins og koltrefjar, ógna stöðu álsins.

Álfyrirtækin langt frá því að koma út á sléttu

Í dag er verð á áli, miðað við þriggja mánaða framvirka samninga, 1847,5 Bandaríkjadollarar á tonnið. Guðbjört segir að samkvæmt greiningu hjá Bloomberg þurfi markaðsverð áls að vera 2182 dalir á tonnið til að framleiðsla upp á 30 milljón tonn komi út á sléttu.

„Þannig að þrátt fyrir að álverð hækki upp í hæsta verð sem framvirkir samningar gera ráð fyrir, þá er það ekki nóg til að Alcoa komi út á sléttu miðað við núverandi framleiðslu. Niðurstaðan er sú sama og Alcoa sjálft er búið að komast að, fyrirtækið þarf að framleiða minna af áli,“ segir Guðbjört í bréfinu.

Fáir mæla með fjárfestingu í áli

Þegar allir þessir þættir eru teknir saman segir Guðbjört að fáir mæli með fjárfestingum í álfyrirtækjum. Þannig sé Alcoa gefin hlutlaus fjárfestingaeinkunn í fyrrnefndri skýrslu. Aftur á móti hafi þrír greiningaraðilar nú í maí metið stöðu fyrirtækisins þannig að það standi ekki undir væntingum eða að selja eigi hlutabréf í því. Þá hafi matsfyrirtækið Moody‘s tilkynnt í desember að það íhugi að setja skuldbindingar Alcoa í ruslflokk, en í dag er það í flokki Baa3 með neikvæðum horfum.

Skýrir erfiðleika í samningum vegna Helguvíkur

Hún segir að í ljósi þessarar stöðu skuli ekki neinn undra að samningar hafi ekki náðst á milli Landsvirkjunar og Norðuráls vegna rafmagnsverðs. „Ef Alcoa, sem er miklu stærra en Norðurál og nær þ.a.l. betri samlegðaráhrifum ætlar að draga saman segl, þyrfti Norðurál helst að fá borgað með rafmagninu sem það þarf til álframleiðslunnar svo það borgaði sig að stækka Helguvík.“

2,6 sinnum arðbærara að gera „bara eitthvað annað“

Þá bendir hún á að samkvæmt McKinsey skýrslunni sé um 81% af raforkuframleiðslu Íslendinga notað í málmiðnað og 24% af vergri þjóðarframleiðslu séu tilkomin vegna auðlindanýtingar (fiskiðnaðar, orkuframleiðslu og málmiðnaðar). Aftur á móti séu það  aðeins 15% þeirra sem virkir eru á vinnumarkaði sem hafi atvinnu af auðlindaiðnaðinum.

Þetta þýðir samkvæmt Guðbjörtu að á bakvið hvern og einn starfsmann í auðlindaiðnaðinum séu 58 milljónir í fjárfestingu en 12,5 milljónir í fjárfestingu á bakvið störf í öðrum geirum. Þá fást einungis 250 milljónir af vergri þjóðarframleiðslu fyrir hvern milljarð í fjárfestingu í auðlindaiðnaði, en það fást 650 milljónir af þjóðarframleiðslu fyrir hvern milljarð í öllum öðrum greinum að meðaltali. Segir hún að það sé því um 2,6 sinnum arðbærara að gera „bara eitthvað annað“ en að virkja og reisa álver.

Bréf Guðbjartar í heild sinni á Facebook-síðu hennar

Frétt mbl.is: „Nánast allt byggt á misskilningi“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK