Eftir fáeinar vikur opnar lágvöruverðsverslun Nettó nýja stórverslun á Grandagarði (Fiskislóð) við gömlu höfnina í Reykjavík þar sem verslunin Iceland er nú til húsa.
Tryggir viðskiptavinir Nettó, sem búa í mið- og vesturhluta Reykjavíkur og verslað hafa í Nettó í Mjódd, hafa löngum óskað eftir því að fyrirtækið opnaði fleiri dagvöruverslanir í höfuðborginni, segir í fréttatilkynningu. Nettó hefur nú ákveðið að opna nýja lágvöruverðsverslun á Grandagarði sem verður ellefta verslun Nettó, en sú fyrsta var opnuð á Akureyri árið 1988.
„Vöruúrval í nýju versluninni verður mikið og verðlag að fullu samkeppnishæft við aðrar lágvöruverðsverslanir,“ segir í tilkynningunni.
Í Nettó-versluninni á Grandagarði verður innleitt nýtt sorpflokkunarkerfi og verður úrgangur flokkaður í þrjá flokka, almennt rusl, pappa og pappír og lífrænan úrgang.
Með nýju búðinni mun Nettó starfrækja 11 lágvöruverðsverslanir á landinu, þar af fjórar á höfuðborgarsvæðinu, þ.e.a.s. á Grandanum, í Mjódd og Hverafold í Reykjavík og við Salaveg í Kópavogi. Aðalskrifstofa Nettó er í Reykjanesbæ. Starfsmannafjöldi Nettó er 310 manns í 162 stöðugildum.