Talsmaður Danske bank í Finnlandi, Timo J. Anttila, segir að ástæðan fyrir því að bankinn ætli að loka tæplega helming allra útibúa sinna í Finnlandi sé sú að fólk hafi fært viðskipti sín við banka úr útibúum á netið.
Danske bank er með 85 útibú í Finnlandi en nú stendur til að loka 37 útibúum. Anttila segir að þegar hafi verið tilkynnt um lokun 20 útibúa. Ekki sé vitað á þessari stundu hversu margir starfsmenn danska bankans í Finnlandi missa vinnuna. Í mars var tilkynnt um að Danske bank myndi fækka starfsmönnum í Finnlandi um 195 í ár.
Í tilkynningu kemur fram að einungis 1% af daglegum viðskiptum fólks við banka fari fram í útibúum þar sem mun algengara er að fólk eigi viðskipti á netinu og í gegnum bankakort.
Hagnaður Danske Bank tæplega tvöfaldaðist á fyrsta ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra en hagnaðurinn var samt sem áður undir markmiðum bankans.