„Nei, hún hefur engin áhrif á okkar starfsemi,“ segir Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, aðspurður hvort sú ákvörðun matsfyrirtækisins Moody's að færa lánshæfiseinkunn bandaríska álframleiðandans niður í ruslflokk hefði áhrif á rekstur fyrirtækisins á Íslandi.
Í samtali við Morgunblaðið segir Magnús að þetta „snerti fyrst og fremst fjármögnun á framkvæmdum og fjárfestingum. Alcoa er ekki að fjármagna framkvæmdir með lánsfé hérlendis. Við erum ekki með stór fjármögnunarverkefni á dagskránni og því hefur þetta ekki áhrif á starfsemi okkar.“
Lækkandi álverð á heimsmarkaði vegna offramboðs er helsta ástæða þess að lánshæfismatið var lækkað. Í framhaldi mun lántökukostnaður Alcoa hækka og erfiðara verður fyrir fyrirtækið að sækja sér fjármagn á markaði.