„Landsbankinn hefur beðið eftir þessum dómi og lýsir ánægju með að niðurstaða hefur fengist í málinu. Það er fagnaðarefni að dómurinn eyðir tiltekinni óvissu sem ríkt hefur um endurreikning bílálána,“ segir í tilkynningu frá Landsbankanum í kvöld vegna dóms Hæstaréttar í máli Plastiðjunnar gegn Landsbankanum hf.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að endurútreikningur gengistryggðs bílasamnings sem gerður var árið 2007 og var endurútreiknaður 2011 miðað við vexti ákveðna af Seðlabankanum væri ólögmætur
„Landsbankinn hefur nú þegar hafið vinnu við að yfirfara endurreikning allra sambærilegra bílalána hjá bankanum. Þar sem við á mun endurreikningurinn verða leiðréttur þannig að hann verði í samræmi við niðurstöðu dómsins.
Þau lán sem þarfnast skoðunar í Landsbankanum vegna dómsins eru um það bil 30.000 talsins. Því er ljóst að hér er um afar umfangsmikið verkefni að ræða. Vinnunni verður hraðað eins og auðið er og er gert er ráð fyrir að fyrstu bílalánin verði leiðrétt í byrjun júlí næstkomandi,“ segir í tilkynningu frá bankanum.